La vie en rose...

...glefsur úr lífi íslensk-franskrar fjölskyldu í úthverfi Parísarborgar...

29 janúar 2006

Sunnudagur til sælu

Á sunnudögum gerist ég iðulega með eindæmum myndarleg húsmóðir.

Ég byrja á því að teyma alla fjölskylduna á markaðinn sem settur er upp á ráðhússtorginu tvisvar í viku. Þangað mæta bændur eldsnemma á morgnana, setja upp tjöldin sín og raða vörum sínum upp. Þarna fást svo ferskustu ávextirnir og grænmetið sem til eru þann tíma ársins og bændurnir leggja sig alla fram við að veita fyrsta flokks þjónustu.

Mér finnst æðislegt að versla á markaðnum og byrgja mig upp af ávöxtum og grænmeti fyrir vikuna. Ég kem yfirleitt heim með mörg kíló – sem ég borga nokkrar evrur fyrir. Í dag vantaði mig svo ferska steinselju og ég fékk hana “auðvitað gefins” eins og bóndakonan orðaði það (risabúnt sem hefði kostað 600 kr. heima – ágætis bónus það).

Andreu finnst líka frábært að fara á markaðinn, þangað fer hún mjög stolt á flotta þríhjólinu sínu og hún hjálpar svo til við að bera jarðaberin og gulræturnar heim - aftan á hjólinu J. Svo fær hún alltaf að fara í hringekjuna sem er þarna á torginu og það vekur ætíð mikla kátínu.



Nú þegar heim er komið hefst ég samstundis handa við að skera niður grænmetið og sjóða saman dýrindis grænmetissúpu fyrir vikuna – elda svo auðvitað kvöldmatinn á sama tíma, svona úr því ég er í eldhúsinu – og í þetta skiptið gerði ég á sama tíma tilraunarköku: Banana-gulrótar-kakó-kanilköku, alls ekki svo vond og bráðholl auðvitað.

Fyrirmyndarhúsmóðir eða hvað??!

24 janúar 2006

Vor í lofti - eða þannig

Ég var að því komin að fara að skrifa montblogg í síðustu viku sem átti að bera titilinn "Vor í lofti". Ég var mjög sátt við það og keypti m.a.s. 2 sumarkjóla á Andreu og var farin í huganum að plana grillveislur í garðinum.

Í dag er hins vegar nístingskuldi þrátt fyrir glaðasólskin og eins og allir vita er 1°c í Evrópu eins og -10°c á Íslandi.

Það sem mér finnst verst við að búa hér í kulda er að það verður svo hryllilega kalt inni í húsunum. Og það er alveg óþolandi að vera kalt inni hjá sér. Þá þrái ég ekkert meira en að fara í dásamlegt heitt bað (þar sem við erum ekki með baðkar) - og skil ekkert í því að ég skuli ekki fara oftar í bað þegar ég er á Íslandi. Þar hins vegar hef ég ekki þessa löngun - því það er alltaf svo heitt inni í húsunum.

Þegar það er svona kalt þá skil ég líka vel það sem maður hefur oft heyrt frá útlendingum "Úff, ég gæti aldrei átt heima í köldu landi" - því þeir upplifa kuldann öðruvísi en við. Kuldinn hefur eiginlega sjaldan truflað mig mikið á Íslandi, alla vega svona í minningunni :D og alls ekki eins og hér...

Auðvitað er hægt að kynda húsin og það reyni ég að gera. Þegar við Berglind bjuggum heilan vetur í Aix held ég að við höfum tvisvar kveikt á ofninum. Við vorum alltaf að spara. Á mínu heimili er það François, mér til mikillar gremju, sem er alltaf að spara. Hann hleypur á eftir mér og slekkur á ofnunum. Þannig að ég verð að láta mig hafa það að ganga um í ullarpeysu með rautt nef heima hjá mér - og láta mig dreyma um betri tíð með blóm í haga...

19 janúar 2006

14-0.... smá mont...!


Vísir, 19. Janúar 2006 22:41
Meistarinn á Stöð 2:
Deildarstjórinn lagði talsmann neytenda


Stefán Már Halldórsson deildarstjóri starfskjaradeildar hjá Landsvirkjun lagði Gísla Tryggvasyni talsmann neytenda í spurningaþættinum Meistaranum sem fram fór á Stöð 2 í kvöld.

Þessi fjórða viðureign fyrstu umferðar var tvísýn framan af en undir lokin tók Stefán Már afgerandi forystu og sigraði 14-0 eftir að Gísli hafði glatað öllum sínum stigum í síðasta lið keppninnar. Hinn 56 ára gamli félagi í karlakórnum Fóstbræðrum til 24 ára sýndi víðtæka þekkingu og nýttist áhugi hans á tónlistinni vel er hann fékk þrjú stig fyrir að svara rétt spurningunni hvaða djasssveit hefði upphaflega flutt standardinn "Take Five": Dave Brubeck Quartet. Stefán Már hefur nú tryggt sér þátttökurétt í annarri umferð Meistarans og þokast nær sigurlaununum, sem eru fimm milljónir króna í beinhörðum peningum.

Platon er flottastur


Ég má til með að óska Platoni til hamingju með 7 ára afmælið sitt. Honum tókst það sem fáum hundum tókst, að koma fram í vinsælum sjónvarpsþætti - og það á sjálfan afmælisdaginn sinn, þar sem hann var sjálfum sér til mikils sóma. Geri aðrir hundar betur segi ég nú bara.

Platon hefur löngum þurft að þola að grín sé gert að honum í tíma og ótíma, allt í góðu auðvitað. Oft er t.d. vitnað í skemmtilegu smábarnabókina um hann Stubb, þegar bræður hans Óli og Pétur mættu hundi og sögðu við hann: "Farðu burt heimski hundur". Pabbi notar þessa setningu á Platon óspart og finnst öllum það voða fyndið. Það gleymdist samt að hugsa út í það að litla barnið í fjölskyldunni tekur auðvitað öllu bókstaflega og þegar við lesum saman Stubb á hverju kvöldi og Pétur og Óli segja við vesalings hundinn "Farðu burt heimski hundur" segir Andrea alltaf: "Eins og afi segir alltaf" :) Gæti misskilist svona hjá þeim sem ekki þekkja þessar heimsbókmenntir.

14 janúar 2006

Er pabbi Meistarinn???


Stundin nálgast – spennan er í hámarki.

Pabbi minn er meistari í svo ótal mörgu. Hann vann til dæmis uppskriftakeppni hér um árið og hlaut að launum glæsilega matvinnsluvél. Hann tók einnig þátt í spurningakeppni hjá Bryndísi Schram á Stöð tvö fyrir allnokkuð löngu síðan og vann þar myndbandstæki (mjög glæsileg verðlaun á þeim tíma :D). Pabbi minn er líka meistari í að semja sniðug, falleg, hnyttin og stuðluð kvæði um allt og alla á no time og hefur kveðsskapur hans löngum verið hápunkturinn í öllum helstu veislum landsins.

Pabbi er með ótrúlega gott minni og hann getur auðveldlega farið með öll þýsku ljóðin sem hann lærði í menntaskóla og hann getur enn auðveldlega slegið um sig á latínu. Ég lærði það nákvæmlega sama og hann 28 árum síðar og ég man bókstaflega ekkert, ja nema kannski Röslein röslein röslein rot, röslein auf dem Heiden.

En er pabbi Meistarinn hans Loga Bermanns? Það kemur allt í ljós á fimmtudagskvöldið... GO GO pabbi!!

Fiesta mexicana !!

OMG! Mexíkóskt vinafólk Francois síðan í Skotalandi var að hringja og láta okkur vita að þau væru á leiðinni til Parísar... á morgun! Og hvort þau mættu ekki örugglega vera hjá okkur? Ha, jú jú, auðvitað, enda eru þau frábær. Þau tóku það hins vegar ekkert fram í símanum hvað þau ætluðu að vera lengi, og Francois kunni ekki við að spurja... Þetta verður áhugavert! Hasta luego...

11 janúar 2006

French Women don't get fat


er titillinn á bráðskemmtilegri og athyglisverðri bók eftir Mireille Guiliano, forstjóra Veuve Cliquot kampavínsfyrirtækisins í Bandaríkjum. Í stuttu máli segir hún frá því þegar hún, sem ung stúlka, fór sem skiptinemi til Bandaríkjanna og kom heim til Frakklands ári seinna, 10 kg þyngri - eða eins og kartöflupoki í laginu eins og faðir hennar orðaði það svo snyrtilega. Hún segir svo frá því hvernig franski heimilslæknirinn hennar læknaði hana með því einu að minna hana á lífsstíl franskra kvenna (sem hún hafði hætt að lifa eftir í Bandaríkjunum). Bókin er athyglisverð fyrir þær sakir að hún útskýrir hvernig konur geta drukkið kampavín, borðað súkkulaði og þriggja rétta máltíðir í hádeginu og á kvöldin - á hverjum degi, án þess að fitna nokkurn tímann.

Og þetta er staðreynd... frekar pirrandi staðreynd fyrir okkur hinar. Það er mjög sjaldgæft að sjá þéttvaxnar konur hér á götum úti. FEITAR konur sjást hvergi.

Í dag byrjuðu útsölur í París. Ég þaut af stað í hádeginu og tróð mér inn í eina af mínum uppáhalds búðum, Comptoir des Côtonniers, og varð þar vitni að samtali milli tveggja franskra kvenna:

- Julie, ert þetta þú?
- Ahh, Christine, gaman að sjá þig!
- Á að fara að dressa sig upp?
- Já, þetta er svo æðisleg útsala. Það er verst hvað það er margt fólk hérna.
- Alveg troðið. En maður verður að drífa í þessu því annars klárast allar réttu stærðirnar.
- Einmitt, það er varla neitt eftir hér í small og x-small.
- Nákvæmlega, alveg glatað!


Það er nú eins og mig minnir að þegar útsölur hafa staðið yfir lengi á Íslandi, þá er einmitt ekkert eftir nema XS og S.... humm humm.


08 janúar 2006

Af dada-isma...



Við fjölskyldan eyddum laugardeginum í Pompidou safninu, sem er Nýlistasafn Parísar. Ég fór þangað fyrst 15 ára gömul með famílíunni og á þaðan góðar minningar. Francois hafði hins vegar aldrei komið þangað, sem er svo sem alveg dæmigert, aldrei hef ég heldur farið á Vestfirðina - þangað sem allir útlendingar fara. Hann skammaðist sín samt fyrir það og bað mig að nefna það ekki við nokkurn mann - sem ég geri að sjálfsögðu ekki :D.

Í safninu var m.a. tímabundin DADA sýning og henni lauk í dag. Þegar við fórum upp rúllustigann meðfram húsinu og þaðan sem maður sér innganginn og torgið fyrir framan safnið, tókum við eftir því að röðin fyrir framan safnið var orðin ískyggilega löng. Enginn vildi greinilega missa af DADA sýningunni. Þegar við höfðum lokið heimsókn okkar á safninu (við fórum sem sagt ekki á DADA sýninguna, því röðin þangað inn var klukkutíma löng) litum við aftur út á torgið þar sem allir menningarvitar Parísarborgar höfðu safnast saman. Við erum að tala um 2ja tíma röð til að komast inn í anddyri safnsins, klukkutíma röð til að kaupa miðana og svo klukkutíma röð til að komast inn á þessa æðisgengnu DADA sýningu. Ég er viss um að DADA sýningin hefur verið skemmtileg en kommon, 4ra tíma bið... er það ekki bara snobb?


Tusind tak til Icelandair!

Það var seinkun á fluginu okkar til Kaupmannahafnar og við misstum af fluginu til Parísar. Við græddum því hótelnótt og heilan dag í Köben í boði Icelandair. Ég hef ekki komið þangað síðan við Inga eyddum þar nokkrum dögum í ágúst 1995, geðveikar pæjur fra Island og hittum þar tvo sæta Hollendinga og máluðum bæinn rauðan.
Köben er alltaf jafnljúf og þar er svo notalegt að vera. Ég hef nú komið þangað nokkuð oft, sennilega næstum 10 sinnum og Francois hafði komið þangað einu sinni, þegar hann var Erasmus nemi í Svíþjóð. Hann mundi ekkert þaðan - ruglaði borginni við Amsterdam - og vissi ekkert hvort hann hefði gist þar eður ei. Eina sem hann mundi var að hann hafði farið til Christianiu, er þá nú nema furða að hann muni ekkert annað?? Hér eru nokkrar myndir frá deginum. Posted by Picasa