La vie en rose...

...glefsur úr lífi íslensk-franskrar fjölskyldu í úthverfi Parísarborgar...

13 mars 2007

Áfram Birkir!

Júróvisjónaðdáandinn ég gat ekki setið á sér með að kíkja á myndbandið okkar sem frumsýnt var í Kastljósinu í gær. Allt gott um það að segja, fannst reyndar, eins og sjálfsagt mörgum, skrýtið að Eiríkur skyldi ekki skarta rauða hárinu, einkennismerkinu sjálfu, en jæja, það hlýtur að vera einhver pæling á bak við það. Ég er ótrúlega sátt við að Eiki skuli syngja fyrir okkur, mér hefur alltaf fundist hann frábær og þegar ég var langmest spennt fyrir keppninni, 1986, 9 ára gömul, og fannst Gleðibankinn ekki nógu sannfærandi, skildi ég án gríns ekkert í því af hverju við sendum ekki bara Gaggó Vest, aðalhittið þá, og GEÐVEIKT lag að mínu mati...!!

Ég er einnig ánægð með Frakkana í þetta skiptið, en þeir hafa staðið sig ömurlega á síðustu árum, enda áhuginn fyrir keppninni enginn og ekkert gert til að skapa stemningu. Það er þó eins og þeir hafi vaknað af værum blundi í þetta skiptið og áttað sig á því að heil 30 ár eru síðan þeir unnu síðast. Nú var keppnin vel undirbúin, lögin kynnt í margar vikur á undan (algjör nýmæli!) og í úrslitum voru þó nokkur vel frambærileg lög. Sigurlagið er flokkað sem pönk/rokk og er sungið á "frensku", þ.e. nokkur orð á ensku og hin á frönsku með enskum hreim. Hér má hlusta á franska Júróvisjónlagið (veit alveg að þið biðuð í ofvæni eftir þessu)...!

En svona fyrir algjöra tilviljun, því ég horfi nánast aldrei á Kastljósið, rak ég augun í viðtal við Birki Rúnar Gunnarsson, í sama þætti. Birkir var með mér í bekk í grunnskóla í 4 ár og er enginn venjulegur strákur. Hann þurfti að berjast við krabbamein aðeins 5 ára að aldri sem varð til þess að hann missti sjónina. Hann er afburðanáms- og íþróttamaður með húmorinn í lagi sem tekur lífinu með stóískri ró og ótrúlegum léttleika þrátt fyrir augljósa erfiðleika. Hann dúxaði næstum í Versló og fór þaðan í Yale, geri aðrir betur. Mér til mikillar ánægju komst ég að því í Kastljóssþættinum að hann hefur kynnst myndarlegri og geðþekkri stúlku og er nýbúin að eignast með henni barn. Meðan á meðgöngu stóð dró þó fyrir sólu hjá verðandi foreldrum því Birkir hefur greinst aftur með krabbamein, sem virðist þó til allrar hamingju vera læknanlegt. Áfram Birkir, þú sigrar auðvitað. Hér má sjá Birki í Kastljósinu.

6 Comments:

At 10:22 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Já, ég sat límd við Kastljósið, hvort tveggja til að sjá Birki og eins Eika okkar "ekki lengur rauðhærða". Verð að viðurkenna að ungbarnamamman ég átti erfitt með að halda aftur af tárunum þegar Birkir gaf nýfæddum syni sínum pela, og sjálfur í krabbameinsmeðferð. Við stelpurnar sendum honum auðvitað sterka strauma ... Bestu kveðjur frá Guðrúnu á klakanum.

 
At 3:27 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Úff já, sama hér, ég átti svo erfitt með mig...

 
At 10:41 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ég sá þetta ekki og finnst nú bara erfitt að lesa lýsinguna hjá ykkur - einmitt nýbökuð móðirin. Annars mér finnst frenskan frábær :) þetta er bara schniillld. En maður þarf kannski að tala bæði tungumál til að hafa húmor fyrir þessu :)

 
At 5:06 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Arndís, ég er ekkert smá ánægð með að einhver skyldi kíkja á franska lagið, ég er komin með algjört æði fyrir því. En það er sennilega rétt hjá þér að það er náttúrulega miklu skemmtilegra þegar maður skilur textann :D

 
At 12:49 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Skemmtileg færsla Lilja. Mér finnst franska lagið líka mjög skemmtilegt, þeir eiga alveg sjens á að vinna með þetta. Ég hef nú alveg heyrt verri frensku en þetta síðan ég kom hingað til Montréal. Svo eru þeir líka með pínu franskan hreim þegar þeir syngja á ensku sem er ferlega kjút.

 
At 11:50 e.h., Blogger Arna B. said...

Hæ skvís. Er að hlusta á franska eurovision lagið og endurlifa Frakklandsdvölina. Skemmti mér helv. vel í París. Gaman að hitta ykkur skötuhjú.
Tútelú.

 

Skrifa ummæli

<< Home