La vie en rose...

...glefsur úr lífi íslensk-franskrar fjölskyldu í úthverfi Parísarborgar...

15 september 2006

Læknalygi


Nú hangi ég heima, hundslöpp með hita og hálsbólgu. Fyrir tilviljun hringdi tengdapabbi hingað heim í gærmorgun og þegar ég sagði honum að ég væri veik sagði hann strax, “ó nei, ertu búin að fara til læknis”? Ég svaraði því að ég væri nú eiginlega nývöknuð og hefði því ekki haft tíma til þess nei. Þá fór hann (og tengdamamma fyrir aftan) að telja upp alla læknana í nágrenninu sem ég gæti farið til og lét mig fá símanúmerin og heimilisföngin. Ég þakkaði honum fyrir að sagðist mundu hringja í þá seinna um daginn. Sem var reyndar haugalygi. Glætan að ég ætlaði að fara til læknis, þetta er bara týpískur vírus sem kemur og fer og þar að auki á ég bæði parasetamól, nefdropa og eitthvað spray fyrir hálsinn. Ég bara nennti ekki að segja honum að ég ætlaði ekki að fara til læknis. Hér fara menn nefnilega hlaupandi til læknis um leið og hor fer að renna úr nös. Maður er litinn þvílíku hornauga ef maður hefur ekki farið með barn til læknis sem hefur hnerrað einu sinni. Auðvitað er allur varinn góður en þessi ofnotkun á læknum og lyfjum í kjölfarið fer í taugarnar á mér og þess vegna sýni ég þennan mótþróa til að sanna fyrir hinum að líkaminn er langoftast fullkomlega fær um að lækna sig sjálfur. Þegar ég hef farið með Andreu til læknis vegna flensueinkenna fær maður alltaf í það minnsta sjö mismunandi lyf sem hún þarf að taka öll – og það er ekki gaman að koma þeim herlegheitum ofan í 3ja ára gamalt barn! Á Íslandi fékk maður eitthvað hitastillandi og basta.

Annars er lífið farið að ganga sinn vanagang, skólinn er byrjaður aftur og hann gengur vel. Ég bjóst nú alveg við að sjá nokkur tár falla eftir svona langt sumarfrí (rúma tvo mánuði) en mín stóð sig alveg eins og hetja og var ótrúlega spennt að hitta alla krakkana og kennarana. Við ákváðum að hafa þann háttinn á í vetur að senda hana á skóladagheimili þegar skólanum lýkur kl. 16:30 því hvorugt okkar getur sótt hana á þeim tíma. Það kemur rúta í skólann rétt fyrir lok dagsins og sækir börnin sem þangað fara.

Á síðasta ári réðum við frábæra angólska stelpu, Esperönzu, sem Andrea kallaði lengi svo krúttlega Esmeröldu (eins og í hringjaranum í Notre Dame) sem sótti hana í skólann og lék við hana þar til við komum heim rétt fyrir 6. Hún var rosa góð við Andreu og kom til að byrja með alltaf með súkkulaðistykki til að gefa henni þegar hún var búin í skólanum. Ég sagði henni að það væri nú óþarfi að gefa henni súkkulaði á hverjum degi og að ég takmarkaði það bara við laugardaga. Hún hætti því þá en stuttu seinna fór hún að bjóða Andreu á MacDonalds reglulega eftir skóla þar sem í boði var alltaf súkkulaðisheik og stundum franskar. Mér fannst þetta eiginlega vandræðalegt því ég var búin að útskýra fyrir henni hvað hún gæti gefið Andreu í drekkutímanum og að ég byði helst alltaf upp á hollustu á virkum dögum, en hún vildi bara vel og borgaði alltaf upp úr eigin vasa. Ég fór því ekkert að gráta þegar ég frétti að hún gæti ekki haldið áfram næsta vetur, þó svo að þetta sé æðisleg stelpa þá var sumt sem hún skildi ekki alveg.

Skóladagheimilið er mjög fínt með indælu starfsfólki og Andrea er glöð þar. Hún segist sjálf frekar vilja fara þangað heldur en að við finnum nýja stelpu til að passa hana heima. Sem er fínt því þetta er margfalt ódýrara. Sjálf er ég samt með eilíft samviskubit því mér finnast þessir skóladagar alltof langir. Ég er oft að hugsa um að reyna að minnka aðeins við mig í vinnunni og fara jafnvel í 80% stöðu eins og er svo algengt hér, og vera í fríi á miðvikudögum (því þá er enginn skóli). Ég held að það væri frábært en ég er reyndar ekki búin að kanna hvernig því yrði tekið í vinnunni, hmm hmm. Sjáum til. En eftir að hafa nú hangið hér ein heima aðgerðalaus í tvo daga er ég fullviss um að ég myndi aldrei nenna að vera heimavinnandi.

8 Comments:

At 7:54 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Þetta læknatal og lyfjasögur rifja upp fyrir mér þegar ég var Au-Pair í Nice og lyfjastaflarnir sem voru sóttir fyrir börnin þegar þau kvefuðust. Þvílíkt rugl. Á aldrei eftir að gleyma þessu.

Og ég myndi heldur ekki hafa áhuga á því að vera heimavinnandi. Myndi alveg fara með geðheilsuna.

 
At 10:07 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Já þetta er meira ruglið. Ekki skánaði það svo um eftirmiðdaginn þegar hringt var úr skólanum hennar Andreu og ég beðin um að sækja hana því hún hefði gubbað. Þá á maður auðvitað að fara med det samme til læknis sem mér finnst fáránlegt. Hefur einhver farið til læknis eftir að hafa gubbað tvisvar? Eða er ég svona rugluð?

 
At 12:19 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ok - ég verð reyndar að segja að þar sem ég er í Svíþjóð þá er ég að taka eftir því þessa dagana að Svíar virðast hafa annað viðhorf til veikinda en við Íslendingar. Það er t.d. búið að senda Egil heim 2svar út af smá hor! Leikskólastjórinn sagði að hann væri mjög illa kvefaður. Ég hugsaði með mér að þetta ætti eftir að vera skemmtilegur vetur ef drengirnir mættu ekki vera með hor án eþss að þurfa að leggjast í rúmið að mati leikskólakennaranna! Djísúss...

Er ekki annars alger ofgnótt af heimilis- og barnalæknum í Frakklandi? Þeir hljóta að hafa nóg að gera að taka á móti móðursjúkum foreldrum. Fara með barn til læknis eftir að hafa gubbað einu sinni, ég ætti nú ekki annað eftir hahahaha :)

 
At 12:30 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

hefur þú eitthvað á móti heimavinnandi konum??? Ég veit fullvel hvernig það er, dagurinn liðast áfram á milli þess sem maður setur í þvottavél og tekur upp úr uppþvottavélinni- já og svo þarf maður að sinna barninu líka. Eini svona Quality tíminn fer í að kíkja aðeins í tölvuna...
það er greinilega auðvelt að vera læknir í Frakklandi.... bara kvef- og gubbupestir sem lenda á borðinu hjá manni!

 
At 11:12 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Vertu ekki sár Inga mín, ég meinti þetta nú ekki illa. Ég elskaði að vera heima í barnseignarleyfi þannig að mér finnst þú nú bara vera lukkunar pamfíll að vera heima með litla knúsírúsí Pétur :D

OMG Stína, ég held að þú getir nú bara alveg sleppt því að mæta í tíma í vetur ef þetta er attítútið á leikskólanum!!!

 
At 12:14 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

ohh já ég man hvað þetta lækna og lyfja æði fór ógeðslega í taugarnar á mér þegar ég bjó í Frakklandi. verð bara pirruð af því að hugsa til þess...

 
At 3:22 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Arndís mín! Er ekki allt að fara að gerast hjá þér?? Svo verðurðu að fá þér barnalandssíðu og leyfa manni að fylgjast með. Knús og gangi þér vel!

 
At 5:51 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

VEI, ég fann síðuna þína aftur - ohh ég er svo glöð. Mundi að það var eplatré eitthvað. Var svo heppin að þú hafðir kommenterað hjá Ingu og þá fann ég þig aftur. Gleði gleði ...gleði alla tíð (nei það var MH söngurinn ... ahhh ruglaðist aðeins) Fylgist með. Láttu þér batna. EN er Andrea litla í alvöru í skóla? OG til hamingju með afmælið í júlí - þú varst algerlega á símadagatalinu mínu EN svo skildi ég síman eftir þegar ég fór til spánar þarna í kringum afmælið þitt ... og gleymdi að senda þér sms... ef það er sárabót, þá gleymdi ég meira að segja líka að senda pabba afmælis sms (ein ólétt;-)

 

Skrifa ummæli

<< Home