La vie en rose...

...glefsur úr lífi íslensk-franskrar fjölskyldu í úthverfi Parísarborgar...

30 apríl 2006

Íslenskar barnapíur og fleira

Ja hérna, ég sé á mbl.is að það er bara sól og 12°c hiti í Reykjavík. Það eru ekki nema 15 gráður í París og þá veit ég nú alveg að það er miklu heitara á Íslandi.

Ég elska maímánuð í Frakklandi. Það er ekki bara góða veðrið sem gleður mitt hjarta heldur eru hér frídagar í hverri viku næsta mánuðinn (einum fleiri en heima). Þegar ég bjó í Metz og var í háskólanum í Strasbourg raðaði ég stundatöflunni minni þannig að ég þurfti bara að mæta 3svar í viku og mánudagarnir voru afleitir, ég var í skólanum frá 8 til 19. Nema hvað, páskarnir voru seint það árið og skólinn kláraðist því nánast fyrir páska þar sem það var frí alla mánudaga í maí - ekki grét ég það!

Síðasta skólafríinu (fyrir sumarfrí) á árinu er lokið. Hér er nefnilega skóli í 7 vikur og svo er frí í tvær vikur! Ágætis kerfi fyrir börnin sem fá næga hvíld á milli tarna, frábært kerfi fyrir kennarana! en afleitt fyrir foreldrana!! Þetta er alltaf höfuðverkur og pússluspil en við vorum svo heppin að fá að barnapíur ofan af Íslandi sem hjálpuðu okkur seinni frívikuna. Amma og afi hjá okkur í eina viku eftir páska og það var voða notalegt. Amma er einstaklega hrifin af París og hún heldur því fram að ef hún hefði komið hingað ung stúlka hefði hún örugglega ílengst hér...

Eins gott fyrir mig og mína móðurfjölskyldu að svo var ekki!! Árni Freyr kom líka og var með okkur yfir helgina sem var frábært.

Í gær fórum við fjölskyldan upp í Eiffelturninn, ég og Andrea í fyrsta skiptið. Við þurftum að standa í röð í meira en klukkutíma en það var algjörlega þess virði því það er stórkostlegt að vera á toppnum. Þegar við Berglind eyddum einni viku í París '98 komum við auðvitað að Eiffelturninum en þar sem við vorum fátækir námsmenn tímdum við ekki að fara upp. Um kvöldið sama dag áttum við samt ekkert erfitt með að punga út aurum fyrir heitri súkkulaðiköku á Haagen Dazs sem kostaði jafnmikið og inngangurinn í turninn. Þetta kallar maður að kunna að forgangsraða!

Andrea hafði komið einu sinni áður að Eiffelturninum, það var í október þegar við vorum nýflutt út. Ég sagði henni að í þetta skiptið ætluðum við að fara efst upp með lyftu. Þá sagði hún mér að lyfturnar væru gular og rauðar. Ég sagði bara já já eins og svo oft áður. Þetta var NB áður en við lögðum af stað að heiman. Svo komum við að turninum og þá tók ég eftir að lyfturnar voru einmitt gular og rauðar. Þessu hafði Andrea tekið eftir í október og mundi það ennþá. Menn þurfa að vera ansi eftirtektarsamir til að taka eftir þessum rauðu og gulu lyftum… og það er hún!

2 Comments:

At 3:13 e.h., Blogger Unnur Gyda Magnusdottir said...

Ummmm.. vor í París. Hljómar ekki illa! Ofsalega gaman að sjá myndirnar af ykkur með ömmu þinni og afa.

Sendum bestu kveðjur til ykkar allra héðan úr haustinu í Ástralíu. Hlakka til að komast í sumarfrí á Klakann... hittumst vonandi þá.

Kveðja
Unnur Gyða og co.

 
At 7:37 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Mikið er frábært að sjá myndirnar af ykkur, ég verð að kalla á afa og ömmu og sýna þeim þær. Annars get ég varla setið svona inni, veðrið er dásamlegt og garðurinn kallar! Ég er alein í heima svo ég er svolítið löt;-)
koss og knús
mamma

 

Skrifa ummæli

<< Home