La vie en rose...

...glefsur úr lífi íslensk-franskrar fjölskyldu í úthverfi Parísarborgar...

11 mars 2007

Ég vild' ég væri...

...hefðarfrú, og þyrfti aldrei að taka til, vaska upp, þrífa klósett, hengja upp þvott, brjóta saman þvott, ryksuga og skúra. Og byrja svo upp á nýtt daginn eftir. Þetta líf, þetta líf... getur verið þreytandi þegar maður á hvorki uppþvottavél né þurrkara! Og það er ekki vegna þess að ég tími ekki að kaupa mér þessar vélar sem auðvelda lífið svo um munar heldur einfaldlega vegna þess að það er ekki gert ráð fyrir þeim hér í íbúðinni minni.



Svo er framkvæmdaleysið alveg að fara með okkur skötuhjúin. Við höfum talað um það örugglega í ár að við ætlum að ráða til okkar manneskju til að sjá um þrif hér á heimilinu. Það er ekki eins og maður hafi endalausan frítíma með fjölskyldunni og ég nenni ekki lengur að hafa það hangandi yfir mér alla helgina að við eigum eftir að þrífa. En sum sé, eftir að hafa bara talað um þennan góða kost í ár erum við loksins komin með símanúmer hjá þremur konum sem vinir og vandamenn mæla með og væru til í að taka verkið að sér. Sú fyrsta sem við fengum upplýsingar um ætlar að taka 13 € á tímann (rúman þúsundkall) - og vill aðeins vinna á svörtu!!! Viðbrögðin hjá Francois voru eitthvað á þennan veginn: "Kemur ekki til greina, ég læt sko ekki hlunnfara mig", og ég var alveg sammála honum. Konan sú er víst af spænskum ættum og tengdamamma sagði: "Já, já, svona er þetta, peningagræðgin hjá þessum Spánverjum og Portúgölum er náttúrlega engu lík"! Ég fór svo eitthvað að minnast á þetta á mínum íslenska vinnustað þar sem viðbrögðin voru nokkuð ólík: "13 €, ertu ekki að grínast í mér!! Það er ekki neitt"! Þegar ég hugsaði málið er það sennilega alveg rétt, maður verður svolítið ruglaður á þessu lága kaupi hér. Við ákváðum þó að ráða 13 evru konuna ekki því við viljum heldur ráða manneskju sem vinnur ekki á svörtu. Hér er nefnilega mjög sniðugt kerfi sem kemur í vel fyrir slíkt. Þegar menn ráða fólk í vinnu og gefur það upp fær það frádrátt frá skatti. T.d. ef ég ræð manneskju og borga henni 14 € á tímann, fæ ég 7 € tilbaka. Sú sem ég ræð öðlast meiri réttindi innan kerfisins þannig að allir græða.

Við erum enn ekki búin að ráða manneskju. Ekki einu sinni búin að hringja í hinar. Eins og ég sagði, framtaksleysið alveg að fara með okkur. Þangað til læt ég mig dreyma hefðarfrúardrauma.

Amma hans Francois var svoleiðis kona. Hún átti 5 börn en þurfti aldrei að hugsa um þvotta, þrif eða matseld. Þurfti auðvitað ekki að vinna heldur. Hún var allt sitt líf með þernu, þurfti bara að hringja bjöllu og þá var maturinn borinn fram. Pælið í því!




Ekki fer mikið fyrir hefðarfrúardraumum hjá þessum vinkonum ennþá...

3 Comments:

At 1:42 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

já, svona er lífið að verða- enginn tími fyrir húsverkin. Ég læt mig líka dreyma um eina sem kæmi hérna aðra hverja viku og ryksugaði, skúraði og þurrkaði af. Það væri þvílíkur léttir á fjölskylduna. En þá spyr maður sig- er gott fyrir börnin að alast upp í svo miklum þægindum? Að þurfa aldrei að taka til í herberginu eða tæma ruslafötur?
En, maður fórnar ýmsu fyrir þægindin!

 
At 4:42 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Auðvitað eiga börn að hjálpa til og læra sem fyrst að ganga frá eftir sig.
En ég held það séu nú þó nokkur ár í að börnin okkar fari að hjálpa til við að ryksuga og skúra... Þangað til lenda verkin á okkur foreldrunum og ég vil heldur eyða mínum frítíma í barnastúss en klósettþrif ef kostur er á!

 
At 10:02 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Hefðarfrúin móðir þín er með yndislega rússneska stúlku sem kemur og þrífur. Þetta er alveg dásamlegt. Mikið vildi ég samt geta borgað henni samkvæmt franska kerfinu. Ég skammast mín fyrir það réttindaleysi sem stúlkan býr við.

 

Skrifa ummæli

<< Home