La vie en rose...

...glefsur úr lífi íslensk-franskrar fjölskyldu í úthverfi Parísarborgar...

30 apríl 2006

Íslenskar barnapíur og fleira

Ja hérna, ég sé á mbl.is að það er bara sól og 12°c hiti í Reykjavík. Það eru ekki nema 15 gráður í París og þá veit ég nú alveg að það er miklu heitara á Íslandi.

Ég elska maímánuð í Frakklandi. Það er ekki bara góða veðrið sem gleður mitt hjarta heldur eru hér frídagar í hverri viku næsta mánuðinn (einum fleiri en heima). Þegar ég bjó í Metz og var í háskólanum í Strasbourg raðaði ég stundatöflunni minni þannig að ég þurfti bara að mæta 3svar í viku og mánudagarnir voru afleitir, ég var í skólanum frá 8 til 19. Nema hvað, páskarnir voru seint það árið og skólinn kláraðist því nánast fyrir páska þar sem það var frí alla mánudaga í maí - ekki grét ég það!

Síðasta skólafríinu (fyrir sumarfrí) á árinu er lokið. Hér er nefnilega skóli í 7 vikur og svo er frí í tvær vikur! Ágætis kerfi fyrir börnin sem fá næga hvíld á milli tarna, frábært kerfi fyrir kennarana! en afleitt fyrir foreldrana!! Þetta er alltaf höfuðverkur og pússluspil en við vorum svo heppin að fá að barnapíur ofan af Íslandi sem hjálpuðu okkur seinni frívikuna. Amma og afi hjá okkur í eina viku eftir páska og það var voða notalegt. Amma er einstaklega hrifin af París og hún heldur því fram að ef hún hefði komið hingað ung stúlka hefði hún örugglega ílengst hér...

Eins gott fyrir mig og mína móðurfjölskyldu að svo var ekki!! Árni Freyr kom líka og var með okkur yfir helgina sem var frábært.

Í gær fórum við fjölskyldan upp í Eiffelturninn, ég og Andrea í fyrsta skiptið. Við þurftum að standa í röð í meira en klukkutíma en það var algjörlega þess virði því það er stórkostlegt að vera á toppnum. Þegar við Berglind eyddum einni viku í París '98 komum við auðvitað að Eiffelturninum en þar sem við vorum fátækir námsmenn tímdum við ekki að fara upp. Um kvöldið sama dag áttum við samt ekkert erfitt með að punga út aurum fyrir heitri súkkulaðiköku á Haagen Dazs sem kostaði jafnmikið og inngangurinn í turninn. Þetta kallar maður að kunna að forgangsraða!

Andrea hafði komið einu sinni áður að Eiffelturninum, það var í október þegar við vorum nýflutt út. Ég sagði henni að í þetta skiptið ætluðum við að fara efst upp með lyftu. Þá sagði hún mér að lyfturnar væru gular og rauðar. Ég sagði bara já já eins og svo oft áður. Þetta var NB áður en við lögðum af stað að heiman. Svo komum við að turninum og þá tók ég eftir að lyfturnar voru einmitt gular og rauðar. Þessu hafði Andrea tekið eftir í október og mundi það ennþá. Menn þurfa að vera ansi eftirtektarsamir til að taka eftir þessum rauðu og gulu lyftum… og það er hún!

16 apríl 2006

Gleðilega páska!!


Við fjölskyldan áttum frábæra páskahelgi í konungadalnum, Val de Loire. Ég læt myndirnar tala sínu máli í þetta skiptið.

02 apríl 2006

Helgin í máli og myndum

Andrea fór í klippingu í gær á sérstakri barnahárgreiðslustofu. Mjög sniðugur staður þar sem sýndar eru teiknimyndir fyrir framan hvern stól og biðstofan er ævintýralegur kjallari. Fyrir eina klippingu fær hvert barn líka að velja sér eina gjöf. Eins og við mátti búast fannst dömunni mjög gaman og vildi fara aftur í klippingu í dag.


Stofan er staðsett í hinum fallega bæ St-Germain-en-Laye, sem er mjög gamaldags franskur kaþólskur bær - með þar af leiðandi barnmörgum fjölskyldum. Börnin eru yfirleitt mjög vel upp alin og prúðbúin. Litlar stúlkur eru klæddar í kjóla og STUTTA sokka allt árið um kring... maður dauðvorkennir þeim en þær bera sig vel! Minnir mig á eina franska vinkonu mína sem flutti til Íslands og fór í langan göngutúr með tveggja ára dóttur sína í september (þá nýkomin til landsins), klæddi hana í fallegan kjól og stutta sokka en áttaði sig á þegar hún var komin á leiðarenda að dótturinni var ísssskalt! "Allar litlar stúlkur eru svona klæddar í Frakklandi á sumrin" sagði hún þá steinhissa og hafði engan veginn búist við þessu...
Það er svo dásamlegt að fylgjast með gróðrinum spretta út á ljóshraða þessa dagana, ég leit út um gluggann í fyrradag og allt var í blóma - algjört æði :D
Hér sést svo litla skotta í vikulegri hringekjuferð...

01 apríl 2006

Sirkusinn frá Feneyjum er að koma í bæinn!!!



Spennan er í hámarki, þetta er eins og í Línu Langsokki...!!