La vie en rose...

...glefsur úr lífi íslensk-franskrar fjölskyldu í úthverfi Parísarborgar...

16 júlí 2008

Prófessor KOUMI




Frægur fyrir stórkostleg vinnubrögð

Prófessor KOUMI getur leyst öll vandamál yðar varðandi ást, heppni, atvinnu, aðstoð við fyrirtæki, risvandamál, verslun, áfengisvanda, reykingar, frjósemi, fjölskyldurifrildi, próf, bílpróf, viðskiptaþjónustu, feimni, illa anda, verndun. Prófessor KOUMI finnur réttan lífsförunaut fyrir yður og kemur á hjónabandi á mettíma.

HRÖÐ OG VÖNDUÐ VINNUBRÖGÐ

Árangur næst á þremur dögum. Prófessor KOUMI tekst það sem öðrum mistekst.
Hann tekur á móti viðskiptavinum milli kl. 9 og 20.

Símar: 06 30 90 15 32 / 01 41 37 06 32


Og þetta fann ég bara í póstkassanum mínum!!! Ég virðist hafa dottið í lukkupottinn!!!

En án gríns, þá er til fullt af fólki sem gerir ekkert nema í samráði við svona “prófessora”. Ég veit svo sem að trúin flytur fjöll, en þarna eru þó nokkur atriði sem, ja, enginn nema galdramaður gæti afgreitt á þremur dögum. Það er alla vega gagnlegt að vera með númerin hjá svona manni.

Svo við snúum okkur að alvöru lífsins, þá eru ekki nema 5 dagar í settan fæðingardag væntanlegs fjölskyldumeðlims! Ótrúlega spennandi! Ég á svo erfitt með að trúa því að ég sé að fara að eignast lítinn strák á næstu dögum, þó að bumban sé stór og þó að hann láti reglulega finna vel fyrir sér, þá finnst mér þetta allt svo óraunverulegt. Hér í Frakklandi er meðganga miðuð við 41 viku (en ekki 40 eins og á Íslandi), hin opinbera franska dagsetning er því á afmælisdaginn minn, 28. júlí. Þann dag verð ég sett af stað ef barnið verður ekki komið fyrr. Ég geri fastlega ráð fyrir því að svo verði, enda kom Andrea næstum því tveimur vikum of seint. Hér er manni hvorki flýtt né seinkað miðað við sónar, eins og venjan er á Íslandi, hins vegar hefði ég getað valið fæðingardaginn!! Læknirinn minn hefur spurt mig tvisvar hvort ég vilji vera sett af stað einhvern ákveðinn dag, hvort það sé t.d. ekki praktískara fyrir mig að eiga um helgi! Ég er nú samt frekar á því að leyfa náttúrunni að ráða.

Komin 39 vikur á leið...

Þar sem ég mun eiga barnið, á fæðingarheimili Lúðvíks XIV í hinni sjarmerandi borg St-Germain-en-Laye, fá konur mænudeyfingu í 95% tilfella. Ég fékk enga mænudeyfingu þegar ég átti Andreu og er mjög stolt þegar ég segi frá því hér. Það er allt svo náttúrulegt á Íslandi. Flestum konum hér finnst ég örugglega bara skrýtin, af hverju í ósköpunum að þjást þegar maður hefur val um annað?? Sem er ágætis röksemd. Ég ætla bara að sjá til, ég er nú samt frekar á því að fara þægilegu frönsku leiðina í þetta skiptið.

Eftirlit á meðgöngu hér í Frakklandi er mjög strangt. Ég hef t.d. þurft að fara í blóðprufur nánast á tveggja vikna fresti, en ég held að ég hafi farið einu sinni á Íslandi. Það er aðallega vegna þess að ég hef ekki mótefni gegn bogfrymilssótt (toxoplasmose), en flestar franskar konur hafa fengið hana einhvern tímann á lífsleiðinni. Ég verð því að borða allt kjöt, fisk og egg steikt í gegn, skræla alla ávexti og grænmeti og aldrei borða slíkt á veitingastöðum því ég veit ekki hvort það hefur verið þvegið. Ég er svo stressuð yfir þessu að ég þori ekki einu sinni að smakka radísur hjá tengdaforeldrum mínum. Ég held að þessi sótt sé til á Íslandi (einnig er hægt að smitast af kattaskít) en það er ekkert sérstakt eftirlit með henni á meðgöngu.

Ég ætla þó ekki að kvarta, það er vissulega betra að hafa of mikið eftirlit heldur en of lítið. Hér eru konur skyldugar að fara í fæðingarorlof 6-8 vikum FYRIR væntanlegan fæðingardag því þær verða að vera vel úthvíldar þegar að stundinni kemur. Fyrst fannst mér þetta algjörlega fáránlegt en núna skil ég þetta betur, það verður að taka inn í myndina að flestar konur fara til vinnu í almenningsfaratækjum, sem getur verið bæði þreytandi og stressandi á meðgöngu.

Hins vegar er ekki alveg eins vel hugsað um mann EFTIR að barnið fæðist, því þá er fæðingarorlof aðeins 10 vikur!!! Pabbinn fær tvær vikur. Glatað. Lifi norrænu velferðarríkin...

En ég er sem sagt búin að hafa það mjög náðugt í sumar, ekki haft önnur skyldustörf en að fara með og sækja Andreu í skólann. Ég hef reynt að gera garðinn okkar huggulegan, sem hefur tekist svona la la, það er sko ekkert grín að búa í landi þar sem sólin skín meira og minna allt sumarið. Það er svo hrikalegur vöxtur í öllum gróðri að ég er stundum bara að kafna.

Beðin litu ágætlega út í apríl, svo fór allt að vaxa óþarflega mikið!
Það er svo gaman á sumrin!!

Ariane og Andrea kæla sig í hitanum eftir skóla

Andrea og Eva í tívolí í Tuileries garðinum í París. Oh, ís, alltof góður!


Ég komst að því fyrir nokkrum vikum, mér til ánægju og yndisauka (eða það var alla vega fyrsta tilfinning mín...) að ég er með apríkósutré í garðinum, vínvið og svo eplatré sem ég vissi reyndar af, því við plöntuðum því síðasta haust. Eins og titillinn á þessu bloggi ber með sér hefur það alltaf verið draumur hjá mér að vera með eplatré í garðinum. Ég er nefnilega þessi rómantíska, væmna týpa. Eplatréð mitt ber auðvitað ekki ávexti þetta árið, en það gerði apríkósutréð mitt hins vegar. Og þvílík uppskera! Mér fannst þetta æði og allar nágrannakonurnar mínar dauðöfunduðu mig, því það er víst mjög lítið af apríkósum þetta árið, kílóverðið rokkar á milli 5-7 evrur...


Þvílíkt var ég heppin, á trénu voru örugglega fleiri tugir kílóa af apríkósum. Ég gæti búið til sultur, ávaxtamauk og apríkósubökur.... möguleikarnir voru fjölmargir!!! Nema hvað, ég er bara ekki þessi sultu/böku týpa. Ég hef aldrei getað borðað nema ferska ávexti. M.a.s. borða ég einungis eplaköku ÁN epla! Hvað í ósköpunum átti ég að gera við fleiri tugi kílóa af apríkósum? Það er ekki nóg að þær eru, jú vissulega, mjög bragðgóðar, apríkósurnar mínar, ég get bara ómögulega torgað fleirum en 3 á dag. Og ég, rómantíska ávaxtakonan, varð að kyngja því súra epli, að þetta er þokkalega mikið vesen. Ég get með engu móti týnt apríkósurnar sem eru hæst í trénu og þær enda á því að detta á gangstéttina, þar sem þær springa og enginn vill borða þær.


Ef maður sópar ekki alla vega tvisvar á dag fyllist stéttin af apríkósuklessum, maður stígur ofan í þær og allt fyllist af gráðugum flugum sem gæða sér á sætu maukinu. DÆS.... Ég sé eiginlega bara eftir að hafa plantað eplatrénu!

4 Comments:

At 8:20 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

litla krúsídúllan mín, ótrúlega sæt bumba :) Gangi þér vel með allt Lilja mín.
knús,
Inga

 
At 8:10 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Mikið var gaman að sjá nýja færslu og mynd af húsmóðurinni í blóma :o)Ég fylgist vel með á næstu dögum en ég býst nú samt ekki við að sjá neina fjölgun hjá ykkur fyrr en á afmælisdaginn þinn ;o)
Bestu kveðjur úr hitaskúrunum í Kópavogi, Sigurveig

 
At 11:52 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

æi gaman gaman að fá fréttir :) þú ert hrikalega sæt með flotta bumbu og gangi þér bara æðislega vel. þú verður svo að setja mynd af prinsinum fljótlega eftir fæðingu takk... kær kveðja, Arndís

 
At 1:15 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Æ hvað ég er orðin spennt, þú tekur þig svakalega vel út með kúluna Lilja ;) kær kveðja Björg

 

Skrifa ummæli

<< Home