La vie en rose...

...glefsur úr lífi íslensk-franskrar fjölskyldu í úthverfi Parísarborgar...

08 febrúar 2008

Kveðjur úr Kindabæ

Ja hérna, nú hef ég ekki látið heyra í mér almennilega í 8 mánuði! Allt í einu var bara svo mikið að gerast í okkar lífi að ég hreinlega vissi ekki hvar ég átti að byrja. Og svo hafði allt of mikið gerst til að ég hefði orku til að segja frá því. Spurning um að stikla á stóru...:

Í maí bauð François mér í surprise ferð til Madrídar. Æðislegt að koma þangað, spennandi borg og falleg. Ekki sáum við konungshjónin Jóhann Karl eða Soffíu en við rákumst hins vegar á íþróttaálfinn ásamt fríðu föruneyti, á leið í VIP partý sem okkur var ekki boðið í. Það fór nú samt ekkert illa um okkur því François er orðinn mikinn áhugamaður um klassahótel, og af því að það var hann sem skipulagði ferðina (ég er ekkert snobbuð hvað hótel varðar og reyni að eyða sem minnstum pening í þau) bókaði hann fyrir okkur á Ritz. Það var ljúft og þó svo að mér þætti bara vandræðalegt hvernig hótelstarfmennirnir komu fram við okkur eins og greifann og greifynjuna af Fríslandi þá vandist það vel.

Í maí sögðum við upp leigusamningnum af íbúðinni okkar í Poissy. Ég var kominn með hundleið á að vera hálftíma í lest í vinnuna á hverjum degi (þó svo að það sé nokkuð vel sloppið – meðaltími Parísarbúans í vinnuna er 45 mínútur). Þá hófst leitin að nýju húsnæði. Eða svona nokkurn veginn. Við erum nefnilega ekkert sérstaklega stressaðar týpur og trúum því að hlutirnir reddist, sem er mjög íslenskt viðhorf. Það er hins vegar ekki franskt og tengdafjölskyldan saup kveljur yfir því að við værum ekki búin að panta flutningamenn í júní (NB fyrir ágúst!!!), allir væru að flytja akkúrat á þessum tíma og við ættum eftir að sitja eftir með sárt ennið. Við nenntum varla að hlusta á svona histeríu og þá greip tengdamamma til sinna ráða, hringdi í hin ýmsu flutningafyrirtæki og tók á móti þeim heima hjá okkur meðan við vorum í vinnu og fékk þau til að gera kostnaðaráætlun. Allt í einu vorum við komin með fjöldann af kostnaðaráætlunum fyrir flutninga og samkvæmt þeirri ódýrustu hefðum við þurft að borga 150.000 kr. fyrir að flutningamenn kæmu með bíl, héldu á kössununum okkar, tækju í sundur tvö húsgögn og settu saman aftur. Mér var spurn, hvað var að því að leigja bara sendiferðabíl og bera kassana út sjálf? Þannig að ég tók málin í mínar íslensku hendur og gerði kostnaðaráætlun upp á 20.000 kr., allt innifalið, m.a.s. “leiga” á tveimur stæltum aðstoðarmönnum sem hjálpuðu okkur að bera (því miður eigum við ekki marga frækna frændur hér sem hjálpa manni með svona!). Ég var nokkuð stolt með þetta framtak mitt sem þaggaði niður í nokkrum og sparaði mér 130.000 krónur.

Þetta allt gerðist þó áður en við höfðum fundið okkur nýjan samastað! Við vorum heldur ekkert stressuð með það. Við vorum búin að ákveða að finna okkur nýja, stærri leiguíbúð á betri stað. Ég fylgdist með leiguauglýsingum, en þá var alltaf um að ræða íbúðir sem væru lausar daginn eftir, mesta lagi viku seinna. Það var því ekkert hægt að gera í málunum. Ég frétti þó af einni íbúð sem var í 8 mínútna göngufjarlægð frá vinnunni minni, sem við skoðuðum, og þó hún væri fulllítil (60 m2), leist okkur vel á. Það er að segja þangað til við fréttum hvað hún ætti að kosta. 190.000 kr. á mánuði. Fyrir of litla íbúð. Nei takk. Ég komst þá að þeirri niðurstöðu að úr því að við vildum stækka við okkur og flytja á betri stað myndum við alltaf þurfa að borga alla vega þetta. Við gætum því alveg eins keypt okkur íbúð, eins ógeðslega dýrt og það er hér í bæ. Þegar við höfðum komist að þessari niðurstöðu var alveg að koma júlí, he he, og við áttum að flytja út 1. ágúst. Við vorum því eiginlega í vondum málum, því stysti mögulegi tími til að ganga frá húsakaupum eru 2 og hálfur mánuður, og þá er mjög vel sloppið.

Nú jæja, til að gera langa sögu stutta fann ég draumahúsið í bæ sem ber hið fagra heiti Houilles (borið fram ÚÍJ). Hann er 8 km vestur af París og þar búa 30.000 manns sem eru nefndir “Ovillois”. Bærinn Houilles hefur verið til frá miðöldum og þangað komu kóngar og önnur fyrirmenni til að fara á veiðar. Nafnið Houilles er dregið af latneska orðinu oves sem þýðir kindur og því mætti kalla bæinn á Kindabæ á íslensku. Í dag veit auðvitað enginn að þetta þýðir Kindabær og hljómar nafnið eins og “úff”, er þá reyndar skrifað aðeins öðruvísi en borið eins fram. Og við gátum sko aldeilis sagt úff þegar búið var að undirrita kaupsamninginn. Ekki aðeins höfðum við fundið og fengið draumahús heldur voru eigendurnir að flytja út um miðjan júlí og leyfðu okkur að flytja inn þá þó svo að lögum samkvæmt urðum við ekki eigendur hússins fyrr en 18. október!

Þegar ég var á fullu í því að hringja á fasteignasölur til að fá að skoða húseignir hringdi ég á eina, Agence Principale, þar sem við François höfðum hitt geðþekkan sölumann nokkrum dögum áður og skoðað hjá honum íbúð sem hann vildi ólmur selja okkur. Þetta var fyrsta íbúðin sem við skoðuðum og vorum við því ekki alveg til í að gera tilboð með det samme. En sem sagt, þarna hafði ég séð hús sem hann var með á sölu og mér leist mjög vel á, hringdi í hann og spurði hvort ég mætti koma seinna um daginn.
Sölumaður AP: Jú Madame, en verður ekki herrann örugglega með?
Ég: Nei, ég verð ein, maðurinn minn kemst ekki úr vinnunni.
SAP: Getur hann ekki komið einhvern annan dag?
Ég: Nei, svaraði ég aftur, hann er mjög upptekin, get ég fengið að koma í dag?
SAP: En á laugardaginn, komist þið þá?
Ég: Eruð þér að segja mér að ég geti ekki komið ein????
SAP: Þér verðið að skilja, Madame, að við getum ekki leyft það að frúrnar komi fyrst í for-heimsókn og þurfi svo að koma aftur til að sýna herrunum það. Fasteignasalan hefur ekki endalausan tíma afnota. Komist þér með herranum á laugardaginn?

Ég var eiginlega algjörlega orðlaus á þessum tímapunkti. Sagði svo að við myndum hringja aftur og skellti á.

Ég hringdi svo á aðra skrifstofu og fékk að skoða hús sem mér leist vel á. Fór svo aftur að skoða með François á laugardeginum. Okkur leist báðum ljómandi vel á og við keyptum húsið. Ég komst svo að því að þetta hús hafði verið í sölu hjá fleiri en einni fasteignasölu og að þetta var einmitt húsið sem ljóta karlremban hjá Agence Principale hafði neitað mér að skoða, einni.

Þetta var auðvitað tvöföld ánægja, því ef karlpungurinn hefði leyft mér að skoða húsið, einni, hefði ég keypt það af honum, og sölulaunin sem hann fær fyrir húsasölu eru ótrúlega há. Ég samdi svo bréf til Agence Principale þar sem ég tilkynnti þeim að þeir hefðu orðið af sölu hússins vegna karlrembu. Ég hikaði reyndar pínulítið, því þó svo að ég hafi sjaldan orðið eins brjáluð eftir eitt símtal, þá vildi ég heldur ekki að hann myndi missa vinnuna. Þar að auki geng ég fram hjá þessari fasteignasölu á hverjum degi og átti á hættu á að rekast á hann á hverju götuhorni. En, mér var of misboðið til að senda það ekki, svo ég gerði það. Ég held að hann hafi ekki verið rekinn, því ég hef séð hann sniglast þarna fyrir utan fasteignasöluna oftar en einu sinni. Vona bara að hann hafi lært sína lexíu.

Við fengum húsið afhent síðustu vikuna í júlí og gátum þá hafist handa við að mála. Það var nú annað sjokkið fyrir tengdafjölskylduna, ég var náttúrulega alveg brjáluð að ætla að gera þetta sjálf. Ég segi ég, því þá tilvonandi eiginmanni mínum fannst þetta hinn mesti óþarfi, hann var mjög sáttur við gula litinn í eldhúsinu, bláa litinn á ganginum og græna litinn á baðherberginu. En ég ræð, auðvitað, og með dyggri aðstoð Árna Freys sem kom alla leið frá Hollandi til að hjálpa okkur tókst þetta áður en við fluttum inn. Ég mæli samt ekkert sérstaklega með því að fara í svona framkvæmdir með miður handlögnum unnusta þremur vikum fyrir brúðkaup... hehe, getur reynt á sambandið!

En það fór allt vel, við fluttum inn og komum okkur alveg fyrir og flugum svo til Íslands 9. ágúst. Þá tók við ansi stíft prógramm, við fengum 20 útlendinga í heimsókn, þeim þurfti að sinna og svo vorum við að undirbúa brúðkaup. Þann 18. ágúst rann svo loksins upp brúðkaupsdagurinn, bjartur og fagur. Við mamma og Andrea fórum í hárgreiðslu í miðbænum, sem reyndist ekki vera sú allra besta hugmynd sem ég hef fengið, því miðbærinn var auðvitað lokaður bílaumferð þar sem það var maraþon og menningarnótt! Svo þurfti ég að komast í förðun á stofu í Kringlunni, hafði ætlað að taka leigubíl, en það var ekki hlaupið að því. Þá bauðst maður Ingibjargar hárgreiðslukonunnar minnar til að keyra mig, ótrúleg hugulsemi! Þetta gekk því allt og við pabbi vorum komin á réttum tíma í Bessastaðakirkju, en athöfnin hófst kl. 17. Athöfnin var dásamleg og mjög heimilisleg, alveg eins og við vildum. María, spænska mágkonan mín, sem er klassískur gítarleikari, spilaði fyrir gestina áður en athöfnin hófst. Fóstbræður, sem eru “okkar” kór (pabbi er búinn að vera félagi í meira en 25 ár) sungu, Guðrún Árný, frænka mín söng líka með þeim. Hún söng líka frumsamið lag við texta eftir pabba, svooooo fallegt, og bróðir minn, klassískur gítarleikari spilaði líka við athöfnina. Andrea var hringaberi og stóð sig auðvitað óaðfinnanlega. Þetta var alveg einstakt.

Við sögðum bæði já og okkur fannst þetta æði. Við vorum bæði búin að vera nokkuð stressuð, en við hefðum betur látið okkur hlakka til. Mamma og pabbi eru náttúrulega þau allra bestu í öllum heiminum og þau héldu snilldarveislu í Ljósalandinu, fyrst var garðveisla í blíðunni og svo hélt fjörið áfram inni þar sem dansað var til hálffimm um nóttina. Bræður mínir voru veislustjórar og stóðu sig frábærlega. Við vorum svo hamingjusöm með daginn, hann var fullkominn (þó að það hafi sullast rauðvín á kjólinn minn og ég hafi þess vegna horfið úr veislunni í dágóða stund. Fyrir áhugasamar húsmæður næst rauðvín úr silki með vatni og handsápu!).



Ég var gæsuð á gay-pride, það var ekki leiðinlegt!



Of seint að hætta við!!



Andrea tók þessu mjög alvarlega eins og vera ber



Nýgift!


Hjónin að hlusta á ræðu í garðveislunni

Brúðurin í stuði seinna um kvöldin, búin að skipta út rauðvíninu!


Í október fór ég með Álftó-saumaklúbbnum til Búdapest í tilefni þess að við urðum allar þrítugar á árinu. Á milli þess sem við sötruðum Mojito létum við nudda okkur allsberar á baðhúsum borgarinnar. Það var lífsreynsla sem sumar okkar hefðu gjarnan sleppt (sjá lýsingu Ingu frá 18. október) en ég var sátt, enda í fyrsta sinn á ævinni sem ég fór í nudd.

Síðast en alls ekki síst fengum við mikil gleðitíðindi um miðjan nóvember sem við gátum svo tilkynnt í byrjun janúar.... Við eigum von á barni í lok júlí, m.a.s. á afmælisdaginn minn. Spennandi!!!

Ég hélt ég hefði ætlað að stikla á stóru, það gekk ekki alveg eftir...

Kveðjur úr Kindabæ

13 Comments:

At 6:23 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Innilega til hamingju með nýja húsið og óléttuna!

Knús og kossar, Hrafnhildur D

 
At 10:11 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Dásamlegt að geta aftur lesið bloggið þitt, gullið mitt. Mikið er ég ánægð með það að þú skyldir skrifa bréf á þenna ömurlega fasteignasala, það þarf að kippa svona körlum inn í nútímann;-)
knús, mamma

 
At 10:47 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

elsku Lilja mín, innilega til hamingju með brúðkaup, fasteignakaup og bumbubúann :)maður fær bara tár í augun þetta er allt svo æðislegt :)

p.s. mikið var að það kom blogg, ég vissi að það kæmi einn daginn...
gafst aldrei upp ;P

kær kveðja
Arndís

 
At 11:10 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Hæ hæ elsku Lilja og INNILEGUSTU haminguóskir til ykkar með nýja tilvonandi fjölskyldumeðliminn. EN spennó! Þetta hefur greininlega og heldur betur verið viðburðarríkt ár hjá ykkur og það nýja heldur áfram að vera ykkur challenging. Gangi ykkur ofsalega vel á meðgöngunni, og í öllu því sem þið takið ykkur fyrir hendur. Hlakka til að fylgjast með því hér.
Bestu kveðjur frá Ástralíu, Anný og fjölskylda.

 
At 11:56 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Elsku Lilja og fjölskylda
Innilega til hamingju með bumbubúann :) Gangi þér Lilja mín með óléttuna. Loksins kom blogg...nú verður gaman að halda áfram að fylgjast með ykkur.

 
At 11:59 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Sorry...
ég ýtti óvart á ,,entertakkann" áður en ég var búin að skrifa :/ Ég ætlaði líka að þakka fyrir síðast - æðislega Búdapestferð :) Hafið það gott.
Knús & kossar
Magga og co.

 
At 7:59 e.h., Blogger Deeza said...

Engin smá bloggfærsla, gaman að heyra af þér!

Til hamingju með brúðkaupið og húsið og nýja barnið og allt saman! Ekkert smá mikið að gerast :)

Kv. Hafdís

 
At 2:44 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Jessssss loksins kom blogg, búin að kíkja oft inn! Innilega til hamingju með allt, ekkert smá mikið að gerast í einu, en þetta er oft skemmtilegast svona :)
Það væri nú ekki leiðinlegt að fá lítið kríli í afmælisgjöf ef dagurinn verður sá rétti, en annars mæli ég sterklega með 16. júlí, amk er Haraldur ánægður með hann! Berglind Lóa er líka sett í júlí...greinilega ekkert slakara ár en í fyrra af óléttum.
Risaknús til ykkar allra
Sirrý

 
At 11:05 f.h., Blogger Unnur Gyda Magnusdottir said...

Elsku frænka

Frábært að fá fréttir af ykkur - og engar smá fréttir! Innilega til hamingju með þetta allt saman, greinilegt að lífið leikur við ykkur þarna megin.
Knús
Unnur Gyða

 
At 11:05 f.h., Blogger Unnur Gyda Magnusdottir said...

Elsku frænka

Frábært að fá fréttir af ykkur - og engar smá fréttir! Innilega til hamingju með þetta allt saman, greinilegt að lífið leikur við ykkur þarna megin.
Knús
Unnur Gyða

 
At 7:38 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ohh en skemmtilegt blogg, langt og djúsí. Ég veit að árið 2008 verður jafn skemmtilegt og viðburðarríkt og 2007.
Svo er ég sammála mömmu þinni, gott hjá þér að senda bréfið á fasteignasalann,hann hefur vonandi skammast sín.
Það var annars gott að heyra í þér áðan. Hafðu það gott knúsa mín og farðu vel með þig.
xxx
Berglind

 
At 10:19 e.h., Blogger Hrefna said...

Ég kíki hingað stundum og held ég hafi aldrei kommentað áður...en nú var sko ekki hægt annað þetta var svo ÓTRÚLEGA skemmtileg færsla. Innilega til hamingju með þetta allt saman...lifði mig svo inn í lesninguna að ég fékk kökk í hálsinn þegar þú sagðir frá barninu...
Gangi ykkur öllum rosalega vel!!
Hrefna (þú veist úr MR)

 
At 12:30 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Hæ hæ, en æðislega gaman að lesa bloggið þitt, þú ert svo skemmtilegur penni, keep up the good work.
Vona að ykkur bumbubúanum heilsist vel. Hlakka til að sjá vonandi bumbumyndir.

knús Björg og allir strákarnir hennar ;o)

 

Skrifa ummæli

<< Home