La vie en rose...

...glefsur úr lífi íslensk-franskrar fjölskyldu í úthverfi Parísarborgar...

26 desember 2005

Meistarinn!


François hlotnaðist sá mikli heiður að verða í þriðja skiptið vistmeistari stórfjölskyldunnar. Verður þetta að teljast einstakur árangur fyrir Fransmanninn, en í fjölskyldunni er löng hefð fyrir spilamennsku og taka menn leiknum af mikilli alvöru. Til hamingju François!

Gleðileg jól - Joyeux noël

Við fjölskyldan flugum yfir sjó og land til að njóta jólanna á Íslandinu góða.


Það var að venju bróðir minn Árni hinn heppni sem hlaut möndluna í jólagrautnum.

Eftir hádegið vorum við systkinin að skreyta jólatréð þegar allt í einu og öllum að óvörum heyrðust mikil hróp og köll úti í garði. Viti menn, þarna var kominn kertasníkir sjálfur.





Andrea var eiginlega alveg skelfingu lostin og ríghélt í mig meðan á heimsókn jólasveinsins stóð!

Nú var farið að dimma og Andrea komin í sparifötin. "Eru þessi jól ekki að fara að koma"?


Að messu lokinni var skálað í kampavíni og jólunum fagnað. Þessi skemmtilega venja komst á eftir að François kom í fjölskylduna.



Auðvitað borðuðu allir yfir sig, Platon þar meðtalinn, en það er svo gott svona stöku sinnum :þ


22 desember 2005

Maður leggur nú ýmislegt á sig...!

Eftir að hafa prófað öll fötin í skápnum mínum á þriðjudagskvöldið komst ég að því að ég átti hreinlega ekkert til að vera í á jólunum.

Ég þurfti því bráðnauðsynlega að bæta úr því. Eins og svo oft áður gekk ég niður Champs-Elysées í hádeginu og álpaðist inn í Morgan – búð sem ég fílaði mjög vel fyrir allnokkrum árum – en var komin á þá skoðun að hún væri nú aðeins of gelgjuleg fyrir mig.

Nema hvað, mér til mikillar ánægju, þar fann ég alveg gommu af kjólum, pilsum og bolum – var örugglega komin með yfir 10 stykki í fangið þegar elskuleg afgreiðslukona bauðst til að taka frá klefa fyrir mig og koma fötunum fyrir þar. Ég kippti nokkrum flíkum með mér í viðbót og stúlkan vísaði mér í klefann minn. Og þvílík vonbrigði! Það voru engir speglar inni í klefanum. Maður þurfti sem sagt að fara út úr klefanum í hvert skipti sem maður var kominn í nýja flík og leyfa afgreiðslustúlkunum að kommenta á hvað hún klæddi mann vel. Ég hefði ekki getið verið meira pirruð! Þegar ég vel mér föt þá vil ég gera það sjálf. Þar að auki var ég að prófa kjóla og pils – og ég var ekki í sokkabuxum og háhæluðum skóm í stíl. Ég hafði líka einmitt pantað mér tíma í vax nokkrum klukkustundum síðar, þannig að ég var ekki beint í ástandi til að sýna mína fögru leggi!

Það voru svo sem ekki margir kostir í stöðunni. Þetta var síðasta tækifærið sem ég hafði áður en ég færi í jólaköttinn, hádegishléið mitt var alveg að verða búið og þetta voru jú mjög flott föt sem biðu mín í klefanum. Svo ég lét mig hafa það, píndi mig út og leyfði þremur afgreiðslustúlkum að mæla mig út og suður. Og eins og áður sagði var ég með góðan bunka af fatnaði þannig að þetta tók drjúga stund.
Kannski er það bara ég sem er svona skrýtin og spéhrædd? Frönsku konurnar í hinum klefunum virtust alla vega vera að fíla þetta fyrirkomulag vel...

15 desember 2005

Andrea er þriggja ára í dag!!!





13 desember 2005

Sigurboginn er það fyrsta sem ég sé...


...þegar ég hleyp út úr lestinni á hverjum morgni. Mér finnst hann alltaf jafnstórfenglegur!

Sögulexía dagsins:
Sigurboginn var byggður í upphafi 19. aldar til að fagna sigri Napóleons á Austurríki í Austerlitz þann 2. desember 1805. Chalgrin nokkur hannaði bogann og hafist var handa við byggingu hans árið 1806 og tók hún 30 ár. Sigugurboginn er 50 metra hár og 45 metra breiður. Boginn er skrýddur ljónum, höfðum, grímum, sverðum, nöfnum á stríðsmönnum og listum yfir hernaðarlega sigra Frakka.

Var þetta nú ekki áhugavert??
Sigurbogann umlykur stærsta hringtorg sem ég hef séð og það er mér gjörsamlega óskiljanlegt að fá nokkurn botn í hvernig bílarnir komast inn og hvað þá út af því. Ég veit um íslenskan lögfræðiprófessor sem var næstum búin að sækja um skilnað við eiginmann sinn eftir að hafa keyrt þar um !!

Út úr hringtorginu liggja 12 stórkostlegar breiðgötur, ein þeirra er hin fræga Champs-Elysées og önnur þeirra er avenue Kléber, og þar er vinnustaðurinn minn :D

12 desember 2005

"Vous avez un kleenex?"



Ég varð pínulítið "franskari" síðastliðinn föstudag. Ég opnaði 10 pakka kleenexpakkann sem ég fann heima, tók einn og setti hann í handtöskuna mína. Þá um morguninn varð ég loksins eins og allir hinir í lestinni þegar ég dró upp pakkann góða og snýtti mér vel og vandlega. Úff, þvílíkur munur, þetta var allt annað líf, nú þurfti ég ekki stanslaust að sjúga upp í nefið og hljóta að launum undrun og óumbeðin augnaráð samferðarfólks míns.

Þegar ég bjó í Aix fyrir nokkrum árum síðan voru það við Berglind sem litum flissandi hvor á aðra þegar við heyrðum penar franskar stúlkur snýta sér fyrir framan alla eins og gamlir neftóbakskarlar. Okkur datt hins vegar ekki til hugar að einhverjum fyndust dónaleg þessi penu soghljóð sem komu frá okkur... Little did we know í þá daga í okkar stóru buffalo skóm sem engri nettri franskri stúlku hefði komið til hugar að stinga svo mikið sem stóru tánni ofaní. En það er allt önnur saga...

"Les temps changent" eins og snillingurinn Mc Solaar sagði eitt sinn og ég er mjög ánægð með nýja kleenex pakkann í töskunni, ég sló alveg í gegn með hann um helgina og gat lánað öllum þeim sem þess óskuðu dýrmæt kleenexbréf. "Vous avez un kleenex?" (eigið þér pappírsvasaklút?") er nefnilega mjög algeng spurning hér á götum Parísar. Ég hef hingað til alltaf þurft að stóla á François varðandi þessi mál og það hefur ekki brugðist hingað til, maðurinn fer auðvitað aldrei út úr húsi nema með kleenex í vasanum. Núna er ég hins vegar orðin mun sjálfstæðari og ...fágaðri og ég er fegin að dagar óviðeigandi soghljóða eru taldir!

11 desember 2005

Epli og mandarínur






Tvær línur bara til að prófa áður en litla barnið á heimilinu fer í bólið - ótrúlega spennt þar sem kuldaskórinn er úti í glugga í fyrsta sinn á ævinni....

Reyndi að taka jólakortamyndir úti í garði í dag áður en við fórum á markaðinn og keyptum rúm 2 kíló af Korsíkumandarínum, jú hún brosti eins og ég bað um en þetta var samt ekki alveg það sem ég vildi!