La vie en rose...

...glefsur úr lífi íslensk-franskrar fjölskyldu í úthverfi Parísarborgar...

14 október 2006

Vettlingarnir "ódýru"

Hvernig er hægt annað en að dekra við svona ótrúlega sæta stelpu?

Í lok sumars sá ég "sett" í einni af uppáhalds barnabúðunum mínum, Catimini, húfu, trefil og vettlinga. Og þetta var ekkert venjulegt sett, þetta var það allra sætasta sett sem ég hafði séð.

Af því ég keypti slatta hjá þeim á útsölunni í sumar fékk ég 15 € afslátt á haustvörunum, þ.e. ef ég keypti fyrir ákveðna upphæð. Þar sem ég vildi auðvitað ekki tapa heilum 15 € sá ég mig tilneydda til að versla umrætt sett. Húfan og trefillinn voru nauðsyn og vettlingarnir, jú þeir voru ansi dýrir fyrir vettlinga, alveg yfir 20€ - en hey, ég fékk þá næstum því ókeypis.

Dóttir mín varð voða hrifin þegar hún sá þetta dýrindis sett og vildi ólm fara með flísfóðraða húfuna með sætu dúskunum í skólann við sumarkjólinn. Ég reyndi að semja því mér fannst það nú einum of í rúmlega 20 stiga hita og við vorum sammála um að hún mætti fara með fínu vettlingana í skólann.

Nema hvað - auðvitað kom hún ekki með nema einn heim... Það hafði nefnilega akkúrat verið skólaferðalag þann daginn og hún hafði farið með vettlingana í rútuna, misst annan á gólfið, ekki fundið hann og ekki þorað að biðja um hjálp... :(

Ætli ég hafi ekki verið mest vonsvikin en hún reyndi að hughreysta mig eftir bestu getu: "Mamma, þetta er allt í lagi, þú þarft bara að kaupa einn vettling".

07 október 2006

Öfugsnúin franska


Nú hef ég verið viðloðandi Frakkland síðastliðin 9 ár. Ég hef búið þar í næstum þrjú ár, lesið frönsku og franskar bókmenntir í háskólanum, starfað í Sendiráði Frakklands á Íslandi og Sendiráði Íslands í París og síðast en ekki síst, átt franskan kærasta allan þennan tíma. Án þess að ég sé nokkuð að monta mig tel ég að ég tali og skrifi þó nokkuð frambærilega frönsku og m.a.s. kýs ég heldur nútildags að tjá mig á því tungumáli en ensku! Enskan mín er mér til mikillar mæðu stundum svolítið frönskuskotin, það er þá aðallega vegna þess að ég hugsa setningarnar fyrst á frönsku og þýði þær svo yfir á ensku (úff, guð forði mér sem allra fyrst frá þeirri afleiddu braut!)...

Nema hvað, í dag komst ég að stór hópur Frakka talar frönsku sem ég skil ekki boffs í! Ég hef svo sem alltaf vitað af þessari "slangurfrönsku" sem krakkarnir "in the hoods" (dans les cités) tala, hið svokallaða "verlan", (à l'envers) sem hægt er að þýða sem öfugsnúna frönsku. Ég á erfitt með að koma með dæmi, en í staðinn fyrir að segja femme (kona) segja þeir "meuf", "beur" í staðinn fyrir arabe: þeir snúa orðinu við, sleppa staf og bæta við öðrum þannig að nánast nýtt tungumál hefur þróast á milli vissra aðila. Ég áttaði mig ekki alveg fullkomlega á þessu fyrr en í dag þegar ég fékk eftirfarandi sms skilaboð fyrir slysni (varúð, ekki mjög spennó fyrir aðra en frönskufólk :D):

"Wech marmota bien ou koi? Tou hachtec, ni tenvoi 1sms ni ri1 bon javou jai recup mn vieu num. Brf repon gro zoubi wallaaah. "

Þýðing anyone? Ég næ kannski síðasta hlutanum: "..., ni tu envoies un sms ni rien, bon j'avoue j'ai recupéré mon vieux numéro. Bref, réponds, gros bisous voilà."? En fyrri hlutinn, þetta er allt annað tungumál!