La vie en rose...

...glefsur úr lífi íslensk-franskrar fjölskyldu í úthverfi Parísarborgar...

27 mars 2006

Af vori og verkfalli

Loksins loksins loksins.... er komið vor!!! Ég hef aldrei hlakkað svona mikið til vorsins. Það gerðist eitthvað á föstudaginn og í gær gat ég loksins haft alla stóru gluggana mína galopna og húsið ilmaði af gróðri.
Það er mikið að gerast í Frakklandi þessa stundina. Það er allt að verða vitlaust út af nýjum vinnulögum ríkisstjórnarinnar og harðar mótmælagöngur hafa verið hér daglegt brauð síðustu vikurnar. Frakkar eru örugglega heimsmeistarar í mótmælagöngum og áðan gat ég fylgst með mótmælendum út um gluggann í vinnunni minni og hlustað á baráttusöngva.

Það er stemning að fylgjast með þessu þó svo að ég sé ekki endilega 100 % sammála mótmælendum þessara vinnulaga. Hér er mikið atvinnuleysi og eiga þessi lög að hvetja atvinnurekendur til að ráða ungt fólk. Staðan er nefnilega sú að atvinnurekendur þurfa að borga svo gríðarlega há gjöld með hverjum starfskrafti til ríkisins - sem svo er næstum ómögulegt að reka ef hann stendur sig ekki. Með þessari vinnulöggjöf eiga atvinnurekendur miklu auðveldara með að reka óhæfan starfskraft og hafa leyfi til þess í tvö ár eftir að hann er ráðinn. En þó svo að þetta sé sjálfsagt ekki besta lausnin - er þetta hugsanlega eitthvað í áttina til að minnka atvinnuleysið. Er ekki betra að vinna eitthvað og eiga hugsanlega á hættu að vera rekinn en að vinna bara alls ekki neitt??


En á morgun fara allir í verkfall. Allir skólar eru lokaðir, lestirnar í lamasessi, póstþjónusta og rafmagn verður í ólagi. Allir standa saman gegn þessum vondu lögum. Ég ætla því bara að njóta vorsins heima með litlu skólastúlkunni minni - get ekki beint kvartað yfir því. Vive la France!

15 mars 2006

L'Eurovision

Franska Eurovision var í gær.

Síðastliðin 20 ár hef ég ávallt fylgst vel með keppninni og haft gaman af. Hér á árum áður, löngu áður en ég fór til Frakklands, hélt ég alltaf með frönsku lögunum. Man sérstaklega eftir Black and White og Mama Corsika sem mér fannst æði.

Eins og í mörgum löndum "gömlu Evrópu" er áhuginn á Evróvisjón hér enginn. Frakkar hafa gefið Portúgölum 12 stig ár eftir ár, þrátt fyrir hörmuleg lög, en það er jú vegna það eru bara portúgalskir innflytjendur sem horfa á keppnina hér.

Frönsku lögin hafa líka verið frekar dapurleg síðustu ár og ég get nú ekki sagt að ég hrópi húrra fyrir framlagi þeirra þetta árið. Boðskapurinn er þó fallegur og lagið sem heitir "Nous, c'est vous" (Við erum þið), skrifað af söngvara frá Rúanda og á að sýna "The United Colours of France".

En það glataðasta við þessa keppni var það að hún snérist engan veginn um lagið. Titillinn á þættinum var: "Evróvisjón - og ef það væri þú?". Það var löngu búið að finna höfundinn og treysta honum fyrir að semja lagið. Keppnin var söngkeppni, þar sem ungir óþekktir söngvarar, sem höfðu verið valdir í undankeppnum í hinum ýmsu bæjum Frakklands, kepptust um að syngja Céline Dion lög sem allra best og þegar þeir 10 sem voru að horfa höfðu hringt inn atkvæði sín var hárgreiðslukonan Virginie Pouchin valin til að flytja lagið, sem var svo flutt í lokin, og öllum var saman um.

Þetta var sum sé ein önnur idol keppni, og það er ekki eins og það sé einhver hörgull á slíku hér, en virkilega mega hallærisleg. Fer fyrir hjartað á Eurovisionaðdáenda eins og mér, sem tek þetta allt mjög alvarlega!!

09 mars 2006

Tapas fratas

Það var frábært að hitta Stínu, Ásdísi og Evu á laugardagskvöldið. Við fórum á röltið í Bastilluhverfinu og ákváðum að fara á spænskan TAPAS stað. Það var bara góð stemning og staðurinn fullur, við pöntuðum okkur kokteila og vorum flottar á því. Við fengum góðan mat og gott vín. En KRÆST, þjónustan....

Það byrjaði þegar við vorum að panta aðalréttinn og ég í sakleysi mínu spurði hver munurinn væri á Gambas og Calamares, NB þetta er spænska þannig að það var ekki hægt að ætlast til að ALLIR skyldu þetta. Mig minnti að calamares væru risarækjur og að gambas væru venjulegar rækjur, langaði bara að fá það á hreint (f. áhugasama veit ég núna að calamares er smokkfiskur og gambas eru rækjur). En anyhow - svarið frá þessari dásamlegu þjónustustúlku var, ("common vert'ekki svona vitlaus-tónn": "Calamares eru bara calamares og gambas eru bara gambas, það er alls ekki það sama". Takk, ég var miklu nær.

Þegar við vorum næstum búnar með aðalréttinn var hann rifinn af okkur, án þess að spurja hvort við værum búnar, og úr því að við vildum ekki eftirrétt þá var reikningnum dúndrað á borðið okkar. OK, allt í lagi, við létum bara eins og við sæjum hann ekki enda var góð stemning þarna og við vorum ekkert á leiðinni út. Þá kemur þjónustustúlkan og biður okkur að gera upp med det samme. Við áttum ennþá hálfa vínflösku eftir og ég benti henni á það. Hún svaraði mér þá að það væri fólk við barinn sem væri búið að bíða í 45 mínútur eftir borði og bara S'IL VOUS PLAÎT, borga núna.

Óþarfi að taka það fram að þangað fer ég aldrei aftur. Eins gott fyrir þessa staði að það koma 75.000.000 ferðamanna til Frakklands á ári hverju. Þeir geta því auðveldlega leyft sér svona framkomu því ekki þurfa þeir að treysta á fastakúnna... Heppin!

08 mars 2006

Þröngt mega sáttir... leggja!



Svona var búið að umlykja bílinn okkar síðastliðinn laugardag, við erum að tala um að bíllinn fyrir framan var, eins og sést á myndinni, ALGERLEGA klesstur að okkar bíl og að aftan voru í mesta lagi 5 cm á milli bílanna.

Rétt' upp hönd sem treystir sér í þetta!!!

Chocolat à Paris

Úff ég er búin að hafa það alltof gott síðustu daga. Mamma, pabbi og Árni voru í heimsókn og það er óhætt að segja að maður hafi verið gjörsamlega ofdekraður... Ég borðaði svo mikið súkkulaði að ég held ég sé bara komið með ógeð - og það er erfitt fyrir súkkulaðifíkil eins og mig!


Við fórum vítt og breitt um Parísarborg og þræddum kaffihúsin og söfnin. Til allrar hamingju var mamma með í för því hún gat leitt okkur í allan sannleikann um hinar ýmsu byggingar og götur borgarinnar, þeir sem mig þekkja vita að það er ómögulegt að stóla á mig í þeim efnum. Hmmm hmmm - ég lofa að vera betur undirbúin næst, ég hef bara ekki haft tíma til að dinglast inni í borginni og átta mig á áttum og öðru!

Það setti smá strik í reikninginn að Andrea fékk hlaupabólu daginn áður en þau komu! Hvernig er hægt að vera svona óheppin?? Það er þó jákvætt að hún skuli fá hlaupabóluna sem barn. Svilkona mín sagði mér frá hrakförum vinkonu sinnar sem fékk hlaupabóluna nokkrum dögum áður en hún gifti sig! Það verður að teljast enn meiri óheppni...
Þrátt fyrir það áttum við frábæra daga saman og hér eru nokkrar myndir - voilà!