La vie en rose...

...glefsur úr lífi íslensk-franskrar fjölskyldu í úthverfi Parísarborgar...

10 nóvember 2006

Af vodkadrykkju og súkkulaðiáti


Æ ég er svo löt að blogga að það nær engri átt! Ég hef nú samt ekki setið auðum höndum frá því ég lét heyra í mér síðast. Fyrst ber að minnast á frábæra helgi sem við Inga áttum saman í París, blöðruðum út í eitt, héngum á börum og kaffihúsum, borðuðum góðan mat og slöppuðum af. Þar sem Inga er svo "vön", búin að koma mörgum sinnum til borgarinnar og búin að sjá "allt" vorum við ekkert að stressast á milli safna og mannvirkja - og það var sko ekkert verra. Fyrsta kvöldið var ég búin að panta borð fyrir okkur á geggjuðum taílenskum stað við avenue Montaigne, þar sem finna má aðalverslanir allra helstu tískuhúsa Parísar. Sem sagt mjög flottur staður. Við vorum heldur snemma á ferðinni og ákváðum að vera flottar á því og fá okkur drykk á lókal bar skammt frá veitingastaðnum. Úti voru 4 borð og við settumst á eitt þeirra, við hlið okkar sátu franskir strákar sem eyddu dágóðum tíma í að tala um okkur, útlendingana, og það var ekkert eðlilega fyndið. Ég talaði auðvitað ensku við þjónana til að koma ekki upp um frönskukunnáttu mína. Svo var komið að því að panta og Inga bað um mojito. Vesalings þjónninn hafði aldrei heyrt talað um þann framandi drykk. Á drykkjarlistanum leit út fyrir að þeir seldu "kokteil", svo Inga pantaði bara "einn svoleiðis". Eftir smá stund kom hann með minn drykk og spurði Ingu þá hvers konar kokteil hún vildi. "Bara vodka" svaraði Inga, og þetta var einhvern veginn orðið frekar vandræðalegt, og strákarnir á næsta borði fylgdust með öllu sem við sögðum. Þjónninn fór aftur inn, ekki alveg sannfærður á svipinn, og ég var búin að koma mér í þá stöðu að ég gat ekki útskýrt málið á frönsku, þar sem ég hafði ákveðið að þykjast ekki skilja hana. Svo kom þjónninn aftur út 5 mínútum síðar og spurði hvað hún vildi eiginlega fá með vodkanu. "Bara appelsínusafa" svaraði Inga. "Ahh", sagði þjónninn, augljóslega mjög létt, og kom að vörmu spori aftur með ferskan appelsínusafa: "Voilà"! og hvarf aftur inn. Við Inga sprungum úr hlátri og Inga var eiginlega á því að láta bara safann duga, þetta var orðið svo vandræðalegt. Ég hélt nú ekki og fór inn á barinn þar sem strákarnir heyrðu ekki lengur í mér, og sagði þeim að það vantaði vodkað, hvort þeir vildu vera svo elskulegir að koma með það líka. Inga fékk því fordrykkinn sinn að lokum, ég skil reyndar ekki hvernig hún gat drukkið þetta, ég hef nú ekki getað drukkið vodka með neinu síðan á unglingsárunum en það er önnur saga. Vodkaævintýrinu var hins vegar ekki lokið því að án gríns þá komu allir starfsmenn barsins út og gengu hringinn í kringum borðið okkar, einungis í þeim tilgangi að bera augum þessa stórskrýtnu ódönnuðu stúlku sem drakk vodka!

Annars er annað sem Frökkum finnst að ungar konur ættu nú ekki að bera að vörum sér. Á föstudögum fáum við hjónaleysin okkur oft góðan eftirmat og ég er búin að komast að því að einn besti búðingur í bænum fæst á svona hádegisverðarstað (samlokur, salöt, ýmsir smáréttir og... eftirréttir) sem er rétt hjá vinnunni minni. Ég skaust því í hádeginu í dag og keypti 2 dollur af súkkulaðibúðingi (einn skammtur - ein dolla) fyrir kvöldið. Ég var sem sagt hvorki að kaupa mér salat, súpu, né samloku, bara súkkulaðibúðing. Nema hvað, afgreiðslumaðurinn, hann vogaði sér að segja við mig: "Bara súkkulaði!! Það er nú alls ekki nógu gott. Það er nú aldeilis ekki gott. Þetta gengur náttúrulega ekki, ha ha ha". Mér fannst þetta svo vandræðalegt að mig langaði að sökkva ofan í jörðina. Allir fyrir aftan mig í röðinni fylgdust auðvitað með og ég bara gat ekkert gert nema brosa vandræðalega. Og hann endurtók þetta þrisvar sinnum!!! Djísus, þetta er nú ekki dauðasynd, og ég ætlaði heldur ekkert að fara að verja þessi kaup. Eftiráaðhyggja hefði ég auðvitað átt að henda búðingnum framan í hann og strunsa út. En ég er alltaf svo sein að bregðast við svona óvæntum aðstæðum. Það sem er líka ótrúlegt er að þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég fæ athugasemd frá afgreiðslufólki eða karlmönnum fyrir aftan mig í röðinni ef ég er að kaupa eitthvað annað en hálfan skammt af salati og vatn!!!

Degas málaði þessa mynd af ballettsýningu frönsku óperunnar.

Jæja, fleiri fréttir, við fórum fyrir nokkru í fyrsta sinn í gömlu óperuna og sáum ballettsýningu. Það var svo dásamlegt að ég var með tárin í augunum við lok sýningarinnar. Svo er líka ævintýri að koma inn í sjálft óperuhúsið, það er stórkostlegt.


Mamma og pabbi komu svo í stutta heimsókn um síðustu helgi. Það var eins og alltaf meiriháttar að fá þau í heimsókn því við söknum þeirra öll, sérstaklega yngsti meðlimur fjölskyldunnar.

Við fórum í Sirkus, í siglingu á Signu, við keyptum dásamlegt súkkulaði í Mýrinni, drukkum hvítvín "hjá Georges"
Chez Georges er geggjaður staður á þaki Pompidou safnsins og þar verða allir Parísarfarar að láta sjá sig!

og borðuðum á skrýtnum, skemmtilegum og eldgömlum veitingastað, Le petit saint benoît, þar sem hugsuðir og heimspekingar hafa vanið komur sínar kvöld eftir kvöld, áratugum saman. Hér eru nokkrar myndir frá helginni.


Le petit Saint Benoît er svo sannarlega ekki staður sem við mamma hefðum valið svona ótilneyddar...

...en þessi stórskrýtni staður reyndist vera stórskemmtilegur og við sáum ekki eftir að reyna hann!