La vie en rose...

...glefsur úr lífi íslensk-franskrar fjölskyldu í úthverfi Parísarborgar...

20 ágúst 2006

Eftirmiðdagskaffið

OK, ég er kannski að missa af geggjuðu stuði á menningarnótt....
en í eftirmiðdagskaffinu á Costes hótelinu í dag sat Lenny Kravitz beint á móti mér. Þessi fyrrum kærasti Nicole Kidman og Lisu Bonet er vægast sagt M J Ö G flottur.

"We just want be loved", sagði Kravitz í laginu Believe. Held það sé alveg rétt hjá honum.

12 ágúst 2006

Sumar í Úlfabæ

Laugardagseftirmiðdagur og ég ein í kotinu. Ógnvekjandi læti úti á götu: allsvakalegar þrumur, eldingar og grenjandi rigning - og ég verð að viðurkenna að mér finnst það bara svo notalegt. Mér líður betur í svona veðri heldur en í sól og steikandi hita.

Í júlí var hitabylgja allan mánuðinn og þá var ég ánægð með að vera í vinnunni. Úti var algjörlega ólíft, 35-40 stig í stóborg eru algjört ógeð, og sendiráðið með sínu öfluga loftræstikerfi, besti griðarstaðurinn.
Fyrir utan sumarhúsið í Fatouville-Grestain

Í lok mánaðarins fórum við ásamt m&p og Árna Frey í sumarhús í Normandie og það var algjört æði. Við leigðum gamlan stóran sveitabæ í þessum normanska sjarmerandi stíl í pínulitlu sveitaþorpi, Fatouville-Grestain. Þegar ég frönskusérfræðingurinn var spurð að því hvað það þýddi varð fátt um svör en bróðir minn sem er haldinn óstöðvandi fræðsluþrá fann út (eftir að hafa gluggað í franska bók, hann talar NB ekki orð í frönsku) að nafnið er komið frá þeim tíma sem víkingar voru allsráðandi í Normandie (og töluð var “danska” = forníslenska) og þýðir stór úlfur.


Á 29 ára afmælisdaginn minn!

Á morgnana fengum við heimsend croissants og súkkulaðibrauð og á þeim gæddum við okkur úti í morgunsólinni. Um eftirmiðdaginn var þorstanum svalað undir eplatrénu í garðinum.

Á góðri stundu í Úlfabæ

Þess á milli hjóluðum við um sveitir Normandie, spókuðum okkur á krúttlegum strætum Honfleur, sóluðum okkur á glæsilegum ströndum Deauville, keyptum jarðaber og dásamlega jarðaberjasultu (segi ég sem borða samt ekki sultu!) á sveitamarkaði, fórum á slóðir Jóhönnu af Örk í Rúðuborg og drukkum eplacider og calvados.

Hin fullkomna strönd er í Deauville

Honfleur með öllum sínum sjarma...

En nú er ég eins og áður sagði alein heima og það er frekar skrýtin tilfinning. Veit ekki hvenær ég var svona mikið ein síðast. Ég hlakkaði alveg svolítið til því mér finnst gott að vera ein með sjálfri mér en mér til undrunar var ég farin að sakna Andreu og Francois strax fyrsta kvöldið. Þau fóru í sumarhús í Alpana með fjölskyldu Francois, ég ætlaði að fara með en komst svo ekki út af vinnunni. Við komumst nefnilega að því of seint að Francois gat bara komist í frí í ágúst en þá var ég búin að skipuleggja Íslandsferð og þessa Normandie ferð í júní og júlí, allir búnir að kaupa flugmiða o.s.frv. – þannig að við hjónaleysin höfum ekki átt mikið frí saman í sumar. En einhvern veginn verður líka að hafa ofan af fyrir Andreu, hún er nú í fríi í rúma tvo mánuði í sumar þannig að þetta er svo sem gott hennar vegna…

Var að læra að hlaða niður desperate housewives af netinu (betra er seint en aldrei!) og er bara nokkuð stolt af því (thanx TS) – og er þvílíkt spennt fyrir upprennandi laugardagskvöldi!



Aðþrengd eiginkona á góðri stundu ásamt frönskum unnusta sínum