La vie en rose...

...glefsur úr lífi íslensk-franskrar fjölskyldu í úthverfi Parísarborgar...

31 mars 2007

Andrea syngur


13 mars 2007

Áfram Birkir!

Júróvisjónaðdáandinn ég gat ekki setið á sér með að kíkja á myndbandið okkar sem frumsýnt var í Kastljósinu í gær. Allt gott um það að segja, fannst reyndar, eins og sjálfsagt mörgum, skrýtið að Eiríkur skyldi ekki skarta rauða hárinu, einkennismerkinu sjálfu, en jæja, það hlýtur að vera einhver pæling á bak við það. Ég er ótrúlega sátt við að Eiki skuli syngja fyrir okkur, mér hefur alltaf fundist hann frábær og þegar ég var langmest spennt fyrir keppninni, 1986, 9 ára gömul, og fannst Gleðibankinn ekki nógu sannfærandi, skildi ég án gríns ekkert í því af hverju við sendum ekki bara Gaggó Vest, aðalhittið þá, og GEÐVEIKT lag að mínu mati...!!

Ég er einnig ánægð með Frakkana í þetta skiptið, en þeir hafa staðið sig ömurlega á síðustu árum, enda áhuginn fyrir keppninni enginn og ekkert gert til að skapa stemningu. Það er þó eins og þeir hafi vaknað af værum blundi í þetta skiptið og áttað sig á því að heil 30 ár eru síðan þeir unnu síðast. Nú var keppnin vel undirbúin, lögin kynnt í margar vikur á undan (algjör nýmæli!) og í úrslitum voru þó nokkur vel frambærileg lög. Sigurlagið er flokkað sem pönk/rokk og er sungið á "frensku", þ.e. nokkur orð á ensku og hin á frönsku með enskum hreim. Hér má hlusta á franska Júróvisjónlagið (veit alveg að þið biðuð í ofvæni eftir þessu)...!

En svona fyrir algjöra tilviljun, því ég horfi nánast aldrei á Kastljósið, rak ég augun í viðtal við Birki Rúnar Gunnarsson, í sama þætti. Birkir var með mér í bekk í grunnskóla í 4 ár og er enginn venjulegur strákur. Hann þurfti að berjast við krabbamein aðeins 5 ára að aldri sem varð til þess að hann missti sjónina. Hann er afburðanáms- og íþróttamaður með húmorinn í lagi sem tekur lífinu með stóískri ró og ótrúlegum léttleika þrátt fyrir augljósa erfiðleika. Hann dúxaði næstum í Versló og fór þaðan í Yale, geri aðrir betur. Mér til mikillar ánægju komst ég að því í Kastljóssþættinum að hann hefur kynnst myndarlegri og geðþekkri stúlku og er nýbúin að eignast með henni barn. Meðan á meðgöngu stóð dró þó fyrir sólu hjá verðandi foreldrum því Birkir hefur greinst aftur með krabbamein, sem virðist þó til allrar hamingju vera læknanlegt. Áfram Birkir, þú sigrar auðvitað. Hér má sjá Birki í Kastljósinu.

11 mars 2007

Ég vild' ég væri...

...hefðarfrú, og þyrfti aldrei að taka til, vaska upp, þrífa klósett, hengja upp þvott, brjóta saman þvott, ryksuga og skúra. Og byrja svo upp á nýtt daginn eftir. Þetta líf, þetta líf... getur verið þreytandi þegar maður á hvorki uppþvottavél né þurrkara! Og það er ekki vegna þess að ég tími ekki að kaupa mér þessar vélar sem auðvelda lífið svo um munar heldur einfaldlega vegna þess að það er ekki gert ráð fyrir þeim hér í íbúðinni minni.



Svo er framkvæmdaleysið alveg að fara með okkur skötuhjúin. Við höfum talað um það örugglega í ár að við ætlum að ráða til okkar manneskju til að sjá um þrif hér á heimilinu. Það er ekki eins og maður hafi endalausan frítíma með fjölskyldunni og ég nenni ekki lengur að hafa það hangandi yfir mér alla helgina að við eigum eftir að þrífa. En sum sé, eftir að hafa bara talað um þennan góða kost í ár erum við loksins komin með símanúmer hjá þremur konum sem vinir og vandamenn mæla með og væru til í að taka verkið að sér. Sú fyrsta sem við fengum upplýsingar um ætlar að taka 13 € á tímann (rúman þúsundkall) - og vill aðeins vinna á svörtu!!! Viðbrögðin hjá Francois voru eitthvað á þennan veginn: "Kemur ekki til greina, ég læt sko ekki hlunnfara mig", og ég var alveg sammála honum. Konan sú er víst af spænskum ættum og tengdamamma sagði: "Já, já, svona er þetta, peningagræðgin hjá þessum Spánverjum og Portúgölum er náttúrlega engu lík"! Ég fór svo eitthvað að minnast á þetta á mínum íslenska vinnustað þar sem viðbrögðin voru nokkuð ólík: "13 €, ertu ekki að grínast í mér!! Það er ekki neitt"! Þegar ég hugsaði málið er það sennilega alveg rétt, maður verður svolítið ruglaður á þessu lága kaupi hér. Við ákváðum þó að ráða 13 evru konuna ekki því við viljum heldur ráða manneskju sem vinnur ekki á svörtu. Hér er nefnilega mjög sniðugt kerfi sem kemur í vel fyrir slíkt. Þegar menn ráða fólk í vinnu og gefur það upp fær það frádrátt frá skatti. T.d. ef ég ræð manneskju og borga henni 14 € á tímann, fæ ég 7 € tilbaka. Sú sem ég ræð öðlast meiri réttindi innan kerfisins þannig að allir græða.

Við erum enn ekki búin að ráða manneskju. Ekki einu sinni búin að hringja í hinar. Eins og ég sagði, framtaksleysið alveg að fara með okkur. Þangað til læt ég mig dreyma hefðarfrúardrauma.

Amma hans Francois var svoleiðis kona. Hún átti 5 börn en þurfti aldrei að hugsa um þvotta, þrif eða matseld. Þurfti auðvitað ekki að vinna heldur. Hún var allt sitt líf með þernu, þurfti bara að hringja bjöllu og þá var maturinn borinn fram. Pælið í því!




Ekki fer mikið fyrir hefðarfrúardraumum hjá þessum vinkonum ennþá...

01 mars 2007

Held áfram... bara fyrir mömmu!


Jæja gott fólk, þið eruð víst ekki alveg laus við mig. Var samt eiginlega alveg hætt að nenna þessu, viðurkenni það fúslega, en vegna mikils fjölda áskorana og undirskriftalista sem höfðu gengið um allnokkurt skeið á netinu sá ég mig tilneydda til að henda inn örfáum línum, hehe.
Mér til afsökunar hef ég verið ansi upptekin, tók að mér ansi tímafrekt þýðingaverkefni, sem enn er ekki lokið, brúðkaupsundirbúningur hefur tekið sinn toll - því að Frakkar eru jú heimsmeistarar í að flækja lífið: Til að bjóða fólki í brúðkaupsveislu þarftu að senda því 3 boðskort - svona svo gott dæmi sé tekið... Ja, svo er svo mikið að gerast í fréttum að maður þarf að hafa sig allan við til að missa ekki í þráðinn í Baugsmálinu (missti t.d. alveg af þessu nafnlausa bréfi), klámþingjahaldi, Byrgismálinu, frönsku forsetakosningunum, Alþingiskosningunum - og tala nú ekki allar stórfréttirnar um Önnu Nicole og Britney - hvað get ég sagt, það er bara allt brjálað að gera.

En í öðrum fréttum er það helst að lífið gengur sinn vanagang hér í Poissy, við erum nú reyndar farin að hugsa okkur til hreyfings, mig er farið að lengja í að njóta þess enn betur að búa í heimsins fegurstu borg. Það er því stefnan að flytja inn í borgina í júní, eða þegar skólaárið er á enda. Var reyndar pínu hikandi hvort mig langaði meira að búa í úthverfi í húsi með garði eða í íbúð í borginni, og er komin á þá skoðun að mig langi alla vega að prófa að vera í borginni, það eru hvort eð er dásamlegir almenningsgarðar út um allt þegar hlýna fer í lofti. Hér hefur annars verið hin ótrúlegasta blíða í allan vetur... sem, mér til ánægju og yndisauka, er víst normið. Í fyrravetur var ég að frjósa allan veturinn í ullarpeysu með sultardropa heima við - enda var hann sá kaldasti síðan '87.



Nei, þetta er ekki nýfallinn snjór...


Heldur dásamleg ilmandi sumarblóm sem gleðja augað áður
en ég stekk inn í lestina á morgni hverjum


Krúttlegasta heimasætan

Fórum um helgina í ferlega sniðugt vísindasafn, Cité des sciences, þar sem hannað hefur verið sérstakt vísindaleiksvæði fyrir börn, annars vegar 3-5 ára og hins vegar 5-12 ára. Það var svo frábært að fylgjast með Andreu, hún tók öllu mjög alvarlega, þegar hún aðstoðaði við byggingarvinnu, gerði við bíl og malaði korn. Hún var einstaklega ósátt þegar við þurftum að fara því hún hafði ekki fengið nægan tíma til að vinna hveitikornið áður en það fór í vinnslu hjá malaranum.



Búin að gera við bílinn, spenna öryggisbeltið sjálf og tilbúin á rúntinn...

Brjálað að gera í byggingarvinnu


Svo að lokum, örstutt myndayfirlit frá góðum völdum stundum liðinna mánuða. Við eyddum jólunum með fjölskyldu Francois en komum heim um áramótin:



Yours truly á góðri stundu í brúðkaupi Berglindar og Kidda ásamt tilvonandi eiginmanni



Og svo þar sem síðasta færsla birti myndir af tilvonandi afmælisstúlku, þá fylgja hér tvær myndir úr 4. ára afmælinu með bestu vinkonunum úr bekknum:



F.v.: Emma T., Clarisse, Emma C., Diane, Andrea, Grégoire og Amina.


Dóttir mín var fyllilega sátt við litríku Dórukökuna, enda aðalhetjan um þessar mundir.

Tata for now...