La vie en rose...

...glefsur úr lífi íslensk-franskrar fjölskyldu í úthverfi Parísarborgar...

22 desember 2005

Maður leggur nú ýmislegt á sig...!

Eftir að hafa prófað öll fötin í skápnum mínum á þriðjudagskvöldið komst ég að því að ég átti hreinlega ekkert til að vera í á jólunum.

Ég þurfti því bráðnauðsynlega að bæta úr því. Eins og svo oft áður gekk ég niður Champs-Elysées í hádeginu og álpaðist inn í Morgan – búð sem ég fílaði mjög vel fyrir allnokkrum árum – en var komin á þá skoðun að hún væri nú aðeins of gelgjuleg fyrir mig.

Nema hvað, mér til mikillar ánægju, þar fann ég alveg gommu af kjólum, pilsum og bolum – var örugglega komin með yfir 10 stykki í fangið þegar elskuleg afgreiðslukona bauðst til að taka frá klefa fyrir mig og koma fötunum fyrir þar. Ég kippti nokkrum flíkum með mér í viðbót og stúlkan vísaði mér í klefann minn. Og þvílík vonbrigði! Það voru engir speglar inni í klefanum. Maður þurfti sem sagt að fara út úr klefanum í hvert skipti sem maður var kominn í nýja flík og leyfa afgreiðslustúlkunum að kommenta á hvað hún klæddi mann vel. Ég hefði ekki getið verið meira pirruð! Þegar ég vel mér föt þá vil ég gera það sjálf. Þar að auki var ég að prófa kjóla og pils – og ég var ekki í sokkabuxum og háhæluðum skóm í stíl. Ég hafði líka einmitt pantað mér tíma í vax nokkrum klukkustundum síðar, þannig að ég var ekki beint í ástandi til að sýna mína fögru leggi!

Það voru svo sem ekki margir kostir í stöðunni. Þetta var síðasta tækifærið sem ég hafði áður en ég færi í jólaköttinn, hádegishléið mitt var alveg að verða búið og þetta voru jú mjög flott föt sem biðu mín í klefanum. Svo ég lét mig hafa það, píndi mig út og leyfði þremur afgreiðslustúlkum að mæla mig út og suður. Og eins og áður sagði var ég með góðan bunka af fatnaði þannig að þetta tók drjúga stund.
Kannski er það bara ég sem er svona skrýtin og spéhrædd? Frönsku konurnar í hinum klefunum virtust alla vega vera að fíla þetta fyrirkomulag vel...

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home