Sunnudagur til sælu

Ég byrja á því að teyma alla fjölskylduna á markaðinn sem settur er upp á ráðhússtorginu tvisvar í viku. Þangað mæta bændur eldsnemma á morgnana, setja upp tjöldin sín og raða vörum sínum upp. Þarna fást svo ferskustu ávextirnir og grænmetið sem til eru þann tíma ársins og bændurnir leggja sig alla fram við að veita fyrsta flokks þjónustu.
Mér finnst æðislegt að versla á markaðnum og byrgja mig upp af ávöxtum og grænmeti fyrir vikuna. Ég kem yfirleitt heim með mörg kíló – sem ég borga nokkrar evrur fyrir. Í dag vantaði mig svo ferska steinselju og ég fékk hana “auðvitað gefins” eins og bóndakonan orðaði það (risabúnt sem hefði kostað 600 kr. heima – ágætis bónus það).

Andreu finnst líka frábært að fara á markaðinn, þangað fer hún mjög stolt á flotta þríhjólinu sínu og hún hjálpar svo til við að bera jarðaberin og gulræturnar heim - aftan á hjólinu J. Svo fær hún alltaf að fara í hringekjuna sem er þarna á torginu og það vekur ætíð mikla kátínu.

Nú þegar heim er komið hefst ég samstundis handa við að skera niður grænmetið og sjóða saman dýrindis grænmetissúpu fyrir vikuna – elda svo auðvitað kvöldmatinn á sama tíma, svona úr því ég er í eldhúsinu – og í þetta skiptið gerði ég á sama tíma tilraunarköku: Banana-gulrótar-kakó-kanilköku, alls ekki svo vond og bráðholl auðvitað.
Fyrirmyndarhúsmóðir eða hvað??!