Jæja gott fólk, þið eruð víst ekki alveg laus við mig. Var samt eiginlega alveg hætt að nenna þessu, viðurkenni það fúslega, en vegna mikils fjölda áskorana og undirskriftalista sem höfðu gengið um allnokkurt skeið á netinu sá ég mig tilneydda til að henda inn örfáum línum, hehe.
Mér til afsökunar hef ég verið ansi upptekin, tók að mér ansi tímafrekt þýðingaverkefni, sem enn er ekki lokið, brúðkaupsundirbúningur hefur tekið sinn toll - því að Frakkar eru jú heimsmeistarar í að flækja lífið: Til að bjóða fólki í brúðkaupsveislu þarftu að senda því 3 boðskort - svona svo gott dæmi sé tekið... Ja, svo er svo mikið að gerast í fréttum að maður þarf að hafa sig allan við til að missa ekki í þráðinn í Baugsmálinu (missti t.d. alveg af þessu nafnlausa bréfi), klámþingjahaldi, Byrgismálinu, frönsku forsetakosningunum, Alþingiskosningunum - og tala nú ekki allar stórfréttirnar um Önnu Nicole og Britney - hvað get ég sagt, það er bara allt brjálað að gera.
En í öðrum fréttum er það helst að lífið gengur sinn vanagang hér í Poissy, við erum nú reyndar farin að hugsa okkur til hreyfings, mig er farið að lengja í að njóta þess enn betur að búa í heimsins fegurstu borg. Það er því stefnan að flytja inn í borgina í júní, eða þegar skólaárið er á enda. Var reyndar pínu hikandi hvort mig langaði meira að búa í úthverfi í húsi með garði eða í íbúð í borginni, og er komin á þá skoðun að mig langi alla vega að prófa að vera í borginni, það eru hvort eð er dásamlegir almenningsgarðar út um allt þegar hlýna fer í lofti. Hér hefur annars verið hin ótrúlegasta blíða í allan vetur... sem, mér til ánægju og yndisauka, er víst normið. Í fyrravetur var ég að frjósa allan veturinn í ullarpeysu með sultardropa heima við - enda var hann sá kaldasti síðan '87.

Nei, þetta er ekki nýfallinn snjór...

Heldur dásamleg ilmandi sumarblóm sem gleðja augað áður
en ég stekk inn í lestina á morgni hverjum

Krúttlegasta heimasætan
Fórum um helgina í ferlega sniðugt vísindasafn, Cité des sciences, þar sem hannað hefur verið sérstakt vísindaleiksvæði fyrir börn, annars vegar 3-5 ára og hins vegar 5-12 ára. Það var svo frábært að fylgjast með Andreu, hún tók öllu mjög alvarlega, þegar hún aðstoðaði við byggingarvinnu, gerði við bíl og malaði korn. Hún var einstaklega ósátt þegar við þurftum að fara því hún hafði ekki fengið nægan tíma til að vinna hveitikornið áður en það fór í vinnslu hjá malaranum.

Búin að gera við bílinn, spenna öryggisbeltið sjálf og tilbúin á rúntinn...
Brjálað að gera í byggingarvinnu
Svo að lokum, örstutt myndayfirlit frá góðum völdum stundum liðinna mánuða. Við eyddum jólunum með fjölskyldu Francois en komum heim um áramótin:
Yours truly á góðri stundu í brúðkaupi Berglindar og Kidda ásamt tilvonandi eiginmanni
Og svo þar sem síðasta færsla birti myndir af tilvonandi afmælisstúlku, þá fylgja hér tvær myndir úr 4. ára afmælinu með bestu vinkonunum úr bekknum:
F.v.: Emma T., Clarisse, Emma C., Diane, Andrea, Grégoire og Amina.

Dóttir mín var fyllilega sátt við litríku Dórukökuna, enda aðalhetjan um þessar mundir.
Tata for now...