Vettlingarnir "ódýru"

Í lok sumars sá ég "sett" í einni af uppáhalds barnabúðunum mínum, Catimini, húfu, trefil og vettlinga. Og þetta var ekkert venjulegt sett, þetta var það allra sætasta sett sem ég hafði séð.
Af því ég keypti slatta hjá þeim á útsölunni í sumar fékk ég 15 € afslátt á haustvörunum, þ.e. ef ég keypti fyrir ákveðna upphæð. Þar sem ég vildi auðvitað ekki tapa heilum 15 € sá ég mig tilneydda til að versla umrætt sett. Húfan og trefillinn voru nauðsyn og vettlingarnir, jú þeir voru ansi dýrir fyrir vettlinga, alveg yfir 20€ - en hey, ég fékk þá næstum því ókeypis.
Dóttir mín varð voða hrifin þegar hún sá þetta dýrindis sett og vildi ólm fara með flísfóðraða húfuna með sætu dúskunum í skólann við sumarkjólinn. Ég reyndi að semja því mér fannst það nú einum of í rúmlega 20 stiga hita og við vorum sammála um að hún mætti fara með fínu vettlingana í skólann.
Nema hvað - auðvitað kom hún ekki með nema einn heim... Það hafði nefnilega akkúrat verið skólaferðalag þann daginn og hún hafði farið með vettlingana í rútuna, misst annan á gólfið, ekki fundið hann og ekki þorað að biðja um hjálp... :(
Ætli ég hafi ekki verið mest vonsvikin en hún reyndi að hughreysta mig eftir bestu getu: "Mamma, þetta er allt í lagi, þú þarft bara að kaupa einn vettling".